„Ég sagði bara: Þú sérð hvernig ég lít út, þetta er ekkert að fara að ganga,“ rifjar Ólafur Egill Egilsson leikstjóri og leikari upp um samtal sem hann átti við skólastjóra Leiklistarskólans. Frá því hann sótti um og þar til hann fékk inngöngu hafði hann misst allt hár og þótti víst að hann ætti ekki erindi í skólann vegna þess.

Ólafur Egill Egilsson leikstjóri og leikari smitaðist snemma og nokkuð illa að eigin sögn af leikhúsbakteríunni svokölluðu. Aðeins eins og hálfs árs lék hann sitt fyrsta hlutverk, í sjónvarpsmyndinni Silfurtúnglið - og efnistökin voru ekki léttvæg. „Það er barn sem deyr og ég lék það barn. Mjög dramatískt hlutverk,“ segir Ólafur sposkur. Hann var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann ræddi um uppvöxtinn, leikhúsið, kvikmyndalífið og bakteríuna skæðu sem hefur lifað með honum frá blautu barnsbeini.

„Æ, ekki þú líka“

Ólafur á ekki langt að sækja þessa leiklistarbakteríu en foreldrar hans eru Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson. Þó að foreldrarnir hafi stutt hann á sinni braut þá sagði hann þeim ekki frá því þegar hann sótti um Leiklistarskólann. „Maður skammaðist sín pínu, eða ég veit ekki hvort maður skammast sín en að vilja fara í þetta var svona: Æ ekki þú líka. En meira samt í gríni,“ segir hann.

En Ólafur sótti um og komst inn. Þá sagði hann foreldrum sínum tíðindin. „Þetta var ekki skömm en kannski svona að ef maður hefði ekki komist inn í Leiklistarskólann hefði verið asnalegt að vilja það en ná því ekki. En um tvítugt er maður kannski bara pínulítið í hnút.“

Varð heltekinn þegar Arnar lét sig falla á sverðið

Þá hafði Ólafur varið löngum stundum í leikhúsinu með móður sinni þegar hún var að æfa og sýna. Eitt augnablik í æsku er honum sérlega minnisstætt og þá segir hann að leikhústöfrarnir hafi náð tökum á sér.

Tinna var þá að leika í verki sem heitir Rashomon eftir Kurosawa. „Það var æfing og ég man ekkert af hvaða ástæðu en það var stundum þannig að það var ekkert hægt að fá pössun og maður var bara tekinn með. Þá nýttust gömlu þriðju svalirnar dálítið vel því maður var geymdur þar.“

Ólafur var aðeins sjö eða átta ára. Í leikritinu lék Arnar Jónsson mann sem féll á eigið sverð og þótti drengnum mikið til þess koma. „Hann hné niður og lést en reis að vörmu spori upp aftur og svo fékk ég að sjá hvernig sverðið var, að það var lykkja á járninu sem náði utan um líkamann og fer svo undir samúræjabúninginn. Ég varð alveg heltekinn,“ rifjar Ólafur upp.

Fór með bréfið á Arnarhól og hrópaði: Já!

Aðeins nítján ára gamall varð hann hins vegar viðloðinn leikarastarfið frá annarri átt. Þá sá hann um að gera búningana fyrir kvikmyndina Myrkrahöfðingjann eftir Hrafn Gunnlaugsson móðurbróður sinn. „Þetta var svona klikkuð hugmynd sem Hrafn fékk og það var skemmtilegt og fróðlegt og ákveðin eldraun sem reyndi dálítið á. Ég var rétt tvítugur og rak saumsastofu með fjórum saumurum og svo var auðvitað að vera á tökustað, útbúa rútu með búningum, aðbúnaði, hitablásurum, teppum, ullarsokkum og því sem til þarf.“

Verkefnið reyndist vera gríðarleg vinna en mikilvæg í reynslubankann. Hann langaði þó ekki til að sérhæfa sig í saumaskap heldur sá fyrir sér að fara til spænskunám, í arkitektúr eða guðfræði.

En svo fékk hann í hendur bréf frá Leiklistarskólanum um að hann hefði komist inn og þá varð stefnan skýr að miklu leyti. „Maður stendur á krossgötum og hinum megin við þetta þunna pappírsrifrildi er vegvísir sem segir bara til vinstri eða hægri í tilverunni,“ segir Ólafur um daginn sem tíðindin bárust. „Ég fór upp á Arnarhól og stend þarna við styttuna af Ingólfi, dreg andann djúpt og heyri þá hrópað: Já!“

Var viss um að það gæti ekki gengið að vera hárlaus leikari

Það var þó eitt sem skyggði á gleðina sem varð til þess að hann endurskoðaði valið. Þegar hann var átján ára missti hann nefnilega hárið á höfðinu. Þá var hann enn með skegg og augabrúnir en frá þeim tíma sem hann fór í inntökupróf og bréfið örlagaríka barst höfðu skegghárin og augabrúnirnar horfið líka. Það fannst honum setja strik í reikninginn. „Það var auðvitað voða sjokk. Ég var viss um að það gæti ekki gengið og að það vildi enginn hafa leikara sem liti svona út.“

Ástæðan fyrir hármissinum segir Ólafur að sé ákveðinn feill sem eigi sér stað í ónæmiskerfinu og fái líkamann til að telja sér trú um að efnið sem hárið er gert úr eigi ekki að vera partur af systeminu. „En það fylgja engin önnur einkenni,“ segir Ólafur.

Núna er hárleysið hluti af sjálfsmynd Ólafs sem segir að sér bregði ekki lengur að sjá sig í speglinum. Þannig var það þó ekki alltaf. „Það var alveg á tíma framan af að maður kannaðist ekki við sjálfan sig.“

Nú á dögum hittir hann stundum krakka sem eru með sama sjúkdóm og hann minnir þau á að það sé val að láta hann ekki hafa áhrif á sálina þó hann taki hárið. Það var ákvörðun sem hann tók sjálfur á sínum tíma. „Það var einhver tímapunktur í minni tilveru þar sem mér fannst ég þurfa að velja að standa með mér og segja F, U, C, K, I, T, svona er ég.“

Hárkolludeildir í öllu leikhúsum

En áður, þegar hárleysið blasti fyrst við, hélt hann að leikaradraumurinn væri úti. Hann brá á það ráð að eiga hreinskilið samtal við þáverandi skólastjóra Leiklistarskólans, Gísla Alfreðsson. „Ég sagði bara: Þú sérð hvernig ég lít út, þetta er ekkert að fara að ganga,“ segir Ólafur.

Gísli gaf lítið fyrir áhyggjurnar og hughreysti leikarann unga með því að benda honum á að það væru góðar hárkolludeildir í öllum leikhúsum. „Þú ferð bara í nám og sérð svo til.“

Hann ákvað að láta slag standa en segist í gegnum allt námið hafa verið með bakþanka. Þá ákvað hann að ef leikaradraumurinn rættist ekki gæti hann starfað í búningadeild, unnið með texta eða leikstýrt. Eftir útskrift leikstýrði hann, gerði leikmyndir fyrir Grease og Fame sem settar voru upp í Borgarleikhúsinu og Smáralind en það var ekki fyrr en rúmum tveimur árum síðar sem hann steig á svið, í Rómeó og Júlíu í uppsetningu Vesturports.

Síðan þá hefur Ólafur notið gífurlegrar velgengni, bæði sem leikari en í seinni tíð hefur hann komið sér vel fyrir í leikstjórastólnum. „Mér þykir vænt um leikhúsið, hef ástríðu fyrir því og ástríðu fyrir að fólk skemmti sér, að það upplifi og tengi í leikhúsinu.“

Sagði að hroki væri dauðasynd

Þessa ástríðu reynir hann að hafa að leiðarljósi og hann reynir að vera þakklátur og auðmjúkur. Hann lærði það enda snemma af afa sínum, Gunnlaugi Þórðarsyni, að dramb færi engum vel. „Afi minn sagði alltaf að hybris eða hroki væri verst dauðasyndanna því hún inniber að þú hafir ákveðna kosti sem þú umbreytir í löst. Hann talaði oft um þetta.“

Ólafur reynir að halda sér á jörðinni en er samt þakklátur og glaður þegar vel gengur. Nú er sýningin Níu líf um ævi og störf Bubba Morthens komin í 130 sýningar og undirtektirnar eru frábærar. „Það er fólk sem upplifir tengingu við hann, við sjálft sig, mennskuna og hvernig er hægt að falla og rísa upp á ný. Þá finnst manni að maður sé að leggja fólki lið í lífsbaráttu hvers og eins.“

Bubbi, Ásta og Adolf Smári

Í sýningunni um Bubba birtist margt af því sem manneskjur eiga sameiginlegt og geta því tengt við samkvæmt leikstjóranum. „Við erum öll brotin, lítil, hrædd og kvíðin. Við hrösum öll og föllum og við þurfum að láta hugga okkur og að einhver segi við okkur: Hey, þú getur þetta.“

Þá uppörvun segir hann að áhorfendur eigi auðvelt með að finna í Níu lífum. Á síðasta ári setti hann upp Ástu, sýningu um skáldkonuna Ástu Sigurðardóttur og sú sýning gekk líka afar vel, aftur og aftur fyrir fullu húsi.

Nú er í sýningu nýtt leikverk eftir Adolf Smára Unnarsson sem nefnist Nokkur augnablik um nótt og er í leikstjórn Ólafs. „Þetta er frábær frumraun í leikhúsi og þó ég segi sjálfur frá var samstarfið við Adolf Smára alveg frábært. Hann er leiftrandi húmoristi sem nær að bregða egg á þetta samfélag okkar og sneiða það alveg eftir miðju þannig að maður sér allavega ákveðinn hluta þess afhjúpaðan. Hann gerir það þannig að maður getur ekki annað en hlegið og grátið.“

Býr með fjölskyldunni á æskuheimilinu

Ólafur býr með eiginkonu sinni Esther Talíu Casey og börnum þeirra tveimur á gamla æskuheimilinu sínu á Grettisgötu. Þar líður þeim afar vel. „Ég á mjög góðar minningar af því að alast upp í þessu húsi og þegar mamma og pabbi voru að minnka við sig og við vorum akkúrat, vildum stækka við okkur, þá hittist það einmitt þannig á. Mér þykir óskaplega vænt um húsið og eins og ég segi þetta gekk ágætlega, tveir leikarar og tvö börn. Maður er kannski dæmdur til að endurtaka bara,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Ólaf Egil Egilsson í Segðu mér á Rás 1. Hér má nálgast þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.