Á hverju götuhorni er upptaka í gangi og það er myndavél í hverjum einasta síma svo það er varla lengur hægt að bora í nefið án þess að það sé varðveitt á stafrænu formi. Í Vikunni með Gísla Marteini veltir Berglind Festival því fyrir sér hvort það megi í raun taka myndband af hverju sem er.
Berglind Festival fer á stúfana í Vikunni með Gísla Marteini og ræðir að þessu sinni við Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar um hvort það megi taka myndir af fólki hvar sem er og hvenær sem er, eins og veruleikinn í dag býður upp á.
Helga segir að ef verið sé að taka myndir eða myndskeið af fólki í óþægilegum aðstæðum sé gott að fá leyfi en það sé í fínu lagi að taka og birta náttúrulífsmyndir til dæmis á almanna færi þó að nokkrar hræður sjáist einnig á myndinni. Um vinnuveitendur gildi svo þær reglur að þeir mega ekki til dæmis taka myndir á klósetti starfsmanna eða kaffistofunni.
En myndavélar eru ekki bara á símum, staurum og búkum lögreglumanna. Bifreiðar af tegundinni Tesla keyra nú um landið þvert og breitt og í þessum nýju bílum sem taka upp allt sem gerist í kringum bílinn. „Hefur þú klórað þér í rassinum fyrir framan Teslu? Hver hefur ekki gert það spyr ég,“ segir Berglind. Myndavélabúnaður Teslunnar veki upp spurningar um hvort það sé til dæmis viðeigandi að leggja Teslu fyrir framan svefnherbergisglugga nágrannans.
Vikan með Gísla Marteini var á dagskrá á RÚV í gær. Hér er þátturinn aðgengilegur í spilara.