Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að bókin Heimurinn eins og hann er eftir Stefán Jón Hafstein sé vel þess virði að lesa. Bókin er jafnt persónuleg frásögn sem og tilvistarlegt ferðalag um heim á ögurstundu.
„Hann er svolítið að fjalla um þann meinvætt sem maðurinn,“ segir Þorgeir Tryggvason um bók Stefáns Jóns Hafstein, Heimurinn eins og hann er. Bókin byggist að hluta á persónulegum minningum höfundar um vin sinn en einnig um heiminn gervallan. Hann fer úr hinu smáa yfir í hið stóra og dregur upp nokkuð dökka mynd af ástandi heimsins. „Þetta er ástand heimsins á þessum örlagaríku tímum í náttúrunni sem er af okkar völdum og er í hræðilegri krísu,“ heldur Þorgeir áfram.
Í sögunni eru margir þræðir dregnir fram. Allt frá persónulegri sögu höfundar af veiðiferð með vini sínum í faðmi náttúrunnar yfir í upphaf vestrænnar menningar í Rómaveldi hinu forna og samfélagssáttmálann sem þar var settur. „Koma þessir þræðir alveg heim og saman? Ég veit það ekki. Ég er ekki viss um það. En þeir eru allir þess virði að fylgja þeim. Hann er frábær leiðsögumaður um þetta og hefur yfirgripsmikla þekkingu og yfirsýn, sérstaklega þann þátt sem snýr að meinvættinum mannkyninu,“ segir Þorgeir.
„Ég tek undir það, mér finnst svo góð lýsing hjá Þorgeiri að Stefán sé frábær leiðsögumaður, því það er hann,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. „Allar þessar sögur, maður fylgir honum.“ Hún segir að persónuleg saga Stefáns af vini hans sem greinist með banvænan sjúkdóm sé sterk. „Ég velti því fyrir mér, hefði niðurstaðan undir lokin verið ögn bjartari ef vinurinn hefði lifað af?“
Bókin er ekki laus við tilvistarlegar spurningar sem eru áhrifamiklar. „Seinni hlutinn af þessari bók er bara eldmessa. Ég féll nú ekki í tilvistarþunglyndi við þann lestur en það er bara því ég er ekki þannig skapgerð, en hann virkilega fær mann til að hrökkva við,“ segir Kolbrún. „Hann er merkilega lítið þunglyndur miðað við hvað hann er að segja okkur,“ segir Þorgeir.