„Ekki endilega mitt að leiðrétta það“ 

Una sendi frá sér smáskífuna Flækt og týnd og einmana í vor þar sem hún fjallaði um persónuleg málefni á borð við ástina og annað sem margir tengdu við veikindi hennar. Sumarið 2020 greindist Una með alvarlegt heilaæxli en öll lögin á þeirri plötu voru samin áður en hún veiktist.  

„Þannig það varð til smá misskilningur, ekkert lag fjallaði beinlínis um veikindin,“ segir Una. „En mér finnst það ekki endilega mitt að leiðrétta það því að sjálfsögðu má bara lesa í þessa texta.“ Það sé fegurðin við ljóð, þau geti átt við svo margt. „Mín eigin ljóð taka á sig nýja merkingu þegar lífið mitt breytist.“ 

Söng lagið fyrst fyrir framan hóp í rafmagnsleysi 

Með nýja laginu segist Una vera að stíga enn dýpra inn í poppstjörnuhlutverkið sem hana hefur dreymt um. „Það er ótrúlega lúðalegt að tala um sjálfan sig sem poppstjörnu en ég er að gera þetta fyrir barnið í mér,“ segir hún og hlær. Lagið Fyrrverandi vann Una með Hafsteini Þráinssyni kærasta sínum, „sem er ótrúlega klár tónlistarmaður og frábær manneskja,“ bætir hún við.  

Lagið spilaði hún í fyrsta skipti fyrir framan áhorfendur á Bræðslunni í sumar. Kvöldið áður en tónlistarhátíðin opnaði var hún að spila í Fjarðarborg þegar rafmagninu skyndilega sló út. „Þá voru góð ráð dýr og þá greip ég í það sem ég hef oft gert í góðum partíum, þá spilar maður bara Nínu og fær fólk til að syngja.“ Þetta hafi hún gert við góðar undirtektir og tók önnur þekkt lög á meðan hún beið eftir rafmagninu, sem aldrei komst almennilega aftur á.  

Þá bað hún salinn um að hafa þögn vegna þess að hana langaði svo mikið að fá að spila fyrir þau nýtt lag. „Þá söng ég þetta lag og bjóst alls ekki við að fá svona ótrúlega góð viðbrögð,“ segir hún. Þar hafi verið sérstaklega skemmtilegur hópur ungra kvenna sem kom upp að henni eftir viðburðinn og spurði hvort lagið væri ekki örugglega að fara að koma út.  

„Þannig við Haffi töluðum saman og komumst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti nú bara að henda þessu í framkvæmd og nú er það bara tilbúið,“ segir Una.  

Súrrealískt en ógeðslega gaman 

Una segist hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að gera tónlistarmyndband við lagið í samstarfi við Landsbankann fyrir Airwaves. Myyndbandið mun koma út á dögunum. „Þetta er allt búið að vera algjör draumur og mjög súrrealískt en ógeðslega gaman,“ segir hún. 

Útsetningin á laginu var unnin með Hafsteini Þráinssyni, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir spilar á trommur og Tumi Torfason á trompet. Una spilar á píanó og gítar ásamt Hafsteini sem stýrði upptökum og sá um pródúseringu og hljóðblöndun. Styrmir Hauksson tók að sér masteringu lagsins.  

Rætt var Unu Torfadóttur í Popplandi á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.