Eitthundrað flóttamenn hafa komið til landsins í þessari viku.Fimm sveitarfélög bætast á næstu vikum í hóp þeirra sem vilja taka á móti flóttamönnum. Fleiri þarf til segir aðgerðastjóri flóttafólks. Nú taka aðeins fimm sveitarfélög við flóttamönnum. 

100 flóttamenn í vikunni

Meira en eitthundrað milljónir eru á flótta í heiminum samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Aldrei hafa fleiri flóttamenn komið til Íslands en í ár. 

Hvað komu margir í þessari viku?
„Í þessari viku komu hundrað manns. Frá hvaða löndum? Það er aðallega frá Úkraínu og Venesúela en það hafa einhverjir slæðst með frá öðrum löndum líka,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson aðgerðastjóri vegna komu flóttafólks hjá Félags- og vinnumálaráðuneytinu.

Hann segir fjöldann aukast og býst við að samtals komi 500 flóttamenn í október. Nokkrir tugir barna komu í vikunni.

58 flóttabörn bíða skólavistar

Samkvæmt upplýsingum úr Mennta- og barnamálaráðuneytinu biðu um miðja vikuna 58 börn eftir því að komast í skóla; 39 í Hafnarfirði, 18 í Reykjanesbæ og eitt í Reykjavík. Þessar tölur breytast daglega. Vinnumálastofnun endurgreiðir sveitarfélögum grunnkostnað fyrir börn sem búa í búsetuúrræðum á þeirra vegum. Grunnkostnaðurinn nemur 1,7 milljón króna á ári. Þá er hægt að sækja um nokkur hundruð þúsund krónur til viðbótar fyrir hvert barn. 

„Það er nú vonandi að fara að leysast. Menntamálaráðuneytið er í góðu samtali við sveitarfélögin varðandi það.“

Aðeins fimm sveitarfélög hafa sagt já

Í júní sömdu ríkið og sveitarfélögin um tilhögun við móttöku flóttamanna. Þá lýstu 38 sveitarfélög yfir áhuga. Aðeins fimm hafa gert samning; Árborg, Akureyri, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Reykjavík. 

Af fjölmennustu sveitarfélögum hafa Kópavogsbær, Garðabær, Mosfellsbær, og Seltjarnarnes ekki enn samið um móttöku. Og utan höfuðborgarsvæðisins vantar inn Akranes, Fjarðabyggð og Múlaþing og áfram má telja. 

„Ég held að sveitarfélögin vilji fá fólk til sín. Það vantar vinnuafl. Hérna er vinnuafl. Það eru vonandi fimm ný að bætast við núna á næstum vikum en við þurfum fleiri.“

Til dæmis stór sveitarfélög hérna á höfuðborgarsvæðinu eins og Garðabær, Seltjarnarnes, Kópavogur. Það væru þá sveitarfélög sem gætu fyrst stokkið til, er það ekki?

„Jú, jú, og það geta í rauninni öll sveitarfélög stokkið til. Og við höfum lýst því yfir að við erum tilbúin til þess að hjálpa sveitarfélögunum að finna húsnæði ef að það er vandamálið.“