Innviðaráðherra segir rangt að ríkisstjórnin hafi gengið á bak orða sinna gagnvart stjórn Strætós um vænan fjárstuðning vegna covid. Ríkið hafi veitt fjármunum til byggðasamlagsins. Sveitarfélögin sem reki Strætó séu ábyrg fyrir rekstrinum.

Sex hundruð milljóna króna tap var á rekstri Strætós bs á fyrri helmingi ársins og hefur tapið aldrei verið jafn mikið. Samkvæmt nýlegri skýrslu KPMG vantar einn og hálfan milljarð króna í rekstur Strætós. Varaformaður stjórnar Strætós sagði í fréttum RÚV í gær að ríkið hefði gefið vilyrði fyrir vænum fjárstuðningi gegn óbreyttum akstri strætisvagna í covid en lítið hefði verið um efndir. 

„Fyrst vil ég segja að númer eitt, tvö og þrjú þá er strætórekstur, almenningssamgöngurekstur innan sveitarfélaga á höndum sveitarfélaganna, á ábyrgð sveitarfélaganna og ríkið kemur þar hvergi nærri. Það kom beiðni um það og við skoðuðum það og við styrktum Strætó hér á höfuðborgarsvæðinu. Við styrktum ekki strætó í öðrum sveitarfélögum og sá stuðningur nam þeim stuðningi sem við erum að styrkja sveitarfélögin, að keyra milli sveitarfélaga, keyra milli landshluta. Og nam held ég um 120 milljónum króna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Þar fyrir utan styrki ríkið Strætó um allt einn milljarð á ári. 

„Þar til viðbótar höfum við verið síðan með í loftlagsmálum og orkuskiptum með stuðning við Strætó fyrirhugaðan bæði nú og á næstu árum, allt að áratug. Þannig að ég verð að segja eins og er að ég skil ekki þessa umræðu,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður segir að þegar ráðuneytið hafi skoðað rekstur Strætós um mitt síðasta ár hafi tapið verið 400 milljónir. Þá hafi ráðuneytið veitt 120 milljóna króna aðstoð. 

Og þegar þau segja að ríkisstjórnin hafi gengið á bak orða sinna og gefið mjög litla fjármuni inn í fyrirtækið?

„Það er einfaldlega rangt,“ segir Sigurður Ingi.