Breskir áhorfendur á söngleik í London skelltu upp úr í gærkvöldi þegar ein persónan söng línu sem var eins og bein skírskotun í afsögn Liz Truss forsætisráðherra.
Upptaka frá sýningu á söngleiknum Hamilton í London í gærkvöldi hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla.
„Ætla þau stöðugt að skipta um leiðtoga? Hver verður næstur?“ syngur Georg hinn þriðji Englandskonungur um George Washington, sem settist í helgan stein áður en John Adams var kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Línan fékk nýja merkingu í framhaldi af stórfregnum gærdagsins. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir sýningu sagði Liz Truss forsætisráðherra af sér eftir aðeins sex vikna setu í embætti. Bretar hafa haft fjóra forsætisráðherra á aðeins sex árum.