Enginn hefur enn lýst yfir framboði til leiðtoga Íhaldsflokksins, sem jafnframt verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Krafan um kosningar hefur verið hávær frá því að Liz Truss sagði af sér í gær.

Það er ekki nema von að almenningur í Bretlandi sé í óvissu um framhaldið, eftir að Liz Truss sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra í gær. Rishi Sunak, sem varð annar í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í sumar, er nefndur sem mögulegur arftaki en enn sem komið er hefur enginn lýst yfir framboði.

Frambjóðendur þurfa að safna hundrað undirskriftum þingmanna flokksins og frestur til framboðs rennur út á mánudag. Bretar sjá fram á að fá þriðja forsætisráðherrann á þessu ári, nema Boris Johnson taki aftur við embættinu. Breskir miðlar segja hann íhuga að bjóða fram krafta sína á ný. Hann hrökklaðist úr embætti fyrr árinu eftir röð hneykslismála. Stefnt er að því að kynna nýjan leiðtoga, sem jafnframt verður forsætisræðherra Breta, í lok næstu viku. Ítrekað hefur verið bent á að þetta ferli sé ólýðræðislegt. Krafist er kosninga en að óbreyttu verður ekki kosið til þings fyrr en í byrjun árs 2025. 

Segir sjálfstæði einu leiðina fyrir Skota

„Hvað þarf að gerast núna? Það er nauðsynlegt fyrir lýðræðið að boða til þingkosninga í Bretlandi,“ segir Nicola Sturgeon leiðtogi Skoska þjóðarflokksins og fyrsti ráðherra Skotlands. Sturgeon segir að þingkosingar í Bretlandi leysi þó ekki vanda Skota. Svo lengi sem þau séu undirseld þinginu í Westminster þurfi þau að lúta ráðamönnum sem hugsi ekki um velferð Skota. „Eina leiðin fyrir Skotland, segir Sturgeon, er að kjósa sjálfstæði og lýðræðislega rök fyrir því styrkjast nú með hverri klukkustundinni,“ segir Sturgeon.