Útgáfa helgarinnar er byrjuð að streyma inn og við þjófstörtum að venju með nokkrum lögum í Undiröldu kvöldsins. Fyrstir á fóninn eru JóiPé og Valdimar og síðan koma þau koll af kolli, Superserious, Sváfnir Sig, Karen Ósk ásamt Birgi, Axel O, Ástrún Friðbjörnsdóttir og rappdúettinn Cyber.
JóiPé, Valdimar Guðmundsson – Herbergið
Myndband við lagið Herbergið, þar sem JóiPé og Valdimar Guðmundsson leiða saman hesta sína, kom út í gær. Það var forspil fyrir nýja plötu frá JóaPé sem kemur út á morgun, föstudag, og heitir Fram í rauðan dauðann. Lagið Herbergið er búið að malla á pönnunni hjá Jóa í rúm tvö ár og honum og Valda til aðstoðar við flutninginn eru Magnús Jóhann Ragnarsson, Magnús Tryggvason Eliassen, Tumi Árnason og Hafsteinn Þráinsson.
Superserious – Bye Bye Honey
Hljómsveitin Superserious sendir frá sér lagið Bye Bye Honey á morgun, föstudag. Sveitin er skipuð systkinunum Daníel Jóni Jónssyni söngvara og gítarleikara, Heiðu Dóru Jónsdóttur söngkonu og textasmið og frændunum Kristni Þór Óskarssyni bassa- og hljómborðsleikara, Hauki Jóhannessyni gítarleikara og Helga Einarssyni trommara.
Sváfnir Sigurðarson – Flóð og fjara
Lagið Flóð og fjara er þriðja lagið af væntanlegri þriðju plötu Sváfnis en um lagið segir hann: „Flóð og fjara er angurvær hugleiðing um hamingjuna og þá einföldu staðreynd að hamingjan er aldrei fasti. Hún er flökkuskepna. Á það til að fara, en kemur alltaf aftur. Einhvers konar heilræðavísur en vonandi án umvöndunar.“
Karen Ósk ásamt Birgi – Svífum
Akureyringurinn Karen Ósk hefur sent frá sér þröngskífuna Svífum. Karen Ósk vakti töluverða athygli fyrir lagið Haustið, sem hún gerði ásamt Friðrik Dór. Á plötunni Svífum er að finna samnefnt lag sem hún gerir ásamt Birgi Steini Stefánssyni. Birgir Steinn semur lagið ásamt þeim Ásgeiri Orra Ásgeirssyni og Andra Þór Jónssyni.
Axel O – Montgomery County Moonshine
Sveitatónlistarmaðurinn Axel O sendi síðasta föstudag frá sér lagið Montgomery County Moonshine sem hann samdi með félögum sínum frá Dallas í Texas, þeim Milo Deering, Amy Barnett og Kris Rogge Fisher.
Ástrún Friðbjörnsdóttir – Rennum saman við
Tónlistarkonan Ástrún Friðbjörnsdóttir hefur sent frá sér sitt annað lag. Það heitir Rennum saman. Fyrir ekki svo löngu kom út með henni lagið Blekking. Ástrún semur lagið við texta Björns Jörundar bróður síns sem spilar einnig á bassa og syngur bakraddir í laginu.
Cyber – No Cry
Á morgun kemur út smáskífa af komandi breiðskífu dúettsins Cyber. Platan hefur fengið nafnið SAD og er þeirra sjötta breiðskífa. Fyrsta lagið heitir No Cry og er eftir Sölku Valsdóttur sem samdi líka textann ásamt hinum helmingi Cyber, Jóhönnu Rakel Jónasdóttur.