Þolendur eineltis skammast sín oft og leyna eineltinu lengi. Formaður fagráðs um eineltismál segir að áætlanir grunnskóla vegna eineltis ættu að vera samræmdar á landsvísu.
Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum er skipað af ráðherra og tekur að sér mál sem hefur ekki tekist að leysa úr hjá skóla eða sveitarfélagi. Nemendur, foreldrar og forráðamenn og starfsfólk skóla geta leitað til ráðsins. Sigrún Garcia Thorarensen, formaður þess segir að í flestum eineltismálum séu samfélagsmiðlar notaðir. Það geri þau erfiðari viðfangs þar sem erfiðara sé fyrir skólastarfsfólk að sjá að einelti sé að eiga sér stað.
„Krakkarnir leyna þessu svo rosalega lengi. Vilja ekki segja frá af því þeir skammast sín fyrir. Það er verið að ýta á veikustu punktana hjá þeim.“
Grunnskólar eiga lögum samkvæmt að setja sér eineltisáætlun, en þrátt fyrir það hefur einelti aukist, samkvæmt könnunum.
„En hvernig sú áætlun er, það er í raun hverjum skóla í sjálfsvald sett. Í raun myndum við í fagráðinu vilja sjá samræmdar eineltisáætlanir á landsvísu.“
Þannig sé hægt að sjá með betri hætti á hverju úrlausn strandi. Hún segir að skömm foreldra yfir að barn þeirra sé gerandi geti þá verið stórt vandamál í úrlausn mála. Það orsakist af gamaldags hugsunarhætti.
Þá telur Sigrún að auka þurfi eftirfylgni eftir að mál teljast leyst.
„Þannig að þetta blossi ekki upp aftur um leið og fullorðnu aðilarnir eru hættir að krukka í málinu.“