Dæmi eru um að börn hælisleitenda bíði mánuðum saman eftir að komast í skóla, þar sem foreldrarnir ná ekki að tryggja sér húsnæði. Fyrst þarf að fá kennitölu, eftir það hefur fólkið eina viku til að útvega sér íbúð. Yfirvöld sjá ekki um að finna leiguhúsnæði, heldur þarf fólkið að finna það sjálft.

Leika sér hjá Hjálpræðishernum þar sem þau komast ekki í skóla

Þær Rose og Alanna geta vel leikið sér saman, þrátt fyrir að önnur tali bara persnesku og hin spænsku, og önnur sé frá Venesúela en hin frá Íran. Við hittum þær í leikherberginu hjá Hjálpræðishernum, þar sem hvorug þeirra er komin með leikskólapláss. Þeir Rodrigo og Santiago, bræður Alönnu litlu, eru þrettán og níu ára. Þeir eru ekki heldur komnir með skólavist. 

Börnin komu ásamt foreldrum sínum til landsins frá Venesúela í sumar. Pabbi barnanna, Jofred Galeno, er að leita sér að vinnu, en á meðan hann leitar vinnur hann sem sjálfboðaliði í eldhúsinu hjá Hjálpræðishernum. Hann segir að fjölskyldan hafi flúið skelfilegar aðstæður í heimalandinu, þar sem þau óttuðust um líf sitt og limi. 

Hélt að börnin myndu strax fá skólavist 

Jofred segir að það hafi komið honum á óvart að börnin hafi ekki getað byrjað í skóla um leið og fjölskyldan fækk hér hæli. Fyrst þurfti að bíða eftir kennitölu. Nú er kennitalan komin, og þá hefur fjölskyldan eina viku til að finna sér húsnæði. Eftir það er loks hægt að koma börnunum í skóla.

Sjá einnig: Um 1600 flóttamenn á framfæri Vinnumálastofnunar

Jofred segir að börnin óþreyjufull að komast í skóla. Hann segir erfitt fyrir þau að vera einangruð frá öðrum börnum. Drengirnir þurfi að fá menntun og að kynnast öðrum börnum.

15 ára hefur beðið eftir skólavist frá því í vor

Systkinin Amal Dareb, 19 ára, og Adjam Dareb, 15 ára, eru í svipaðri stöðu. Þau komu frá Venesúela fyrir hálfu ári, en biðin eftir kennitölunni var löng. Nú eru þau að leita að húsnæði, svo Adjam geti loks farið í grunnskóla og Amal í menntaskóla. Á meðan búa þau á hótelherbergi ásamt foreldrum sínum, enda ekki hlaupið að því að finna íbúð.