Evrópusambandið ætlar að beita þrjá íranska embættismenn refsiaðgerðum vegna árásardróna sem ríkið hefur útvegað rússlandsher. Rússneskur embættismaður viðurkenndi í dag, að því er virðist óvart, að vopnin væru frá Íran.
Sjá einnig: Refsiaðgerðir undirbúnar gegn Írönum vegna dróna
Refsiaðgerðir ESB voru samþykktar í dag og taka gildi strax. Allar eignir þremenninganna í Evrópu verða frystar auk eigna eins fyrirtækis. Í farvatninu eru refsiaðgerðir gegn fleirum vegna vopnanna. Úkraínumenn segja Rússa hafa nýtt vopnin til að sprengja heimili almennra borgara og innviða. Þá segja þeir að tuttugu og átta slíkum hafi verið beitt í árásum á Kyiv á mánudag þar sem fjórir hið minnsta biðu bana. „Íran útvegar þeim dróna; hjálpar þeim við drápin. Við dráp á Úkraínumönnum. Um það hafa þeir samið fyrir peninga, blóðpeningana sem Íran fær,“ sagði Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu í viðtali í dag.
Rússnesk og írönsk stjórnvöld hafa þrætt fyrir viðskiptin. Síðast í dag þegar talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins spurði á upplýsingafundi hvort það þyrfti að vera að svara þessum orðrómi, eins og hún orðaði það. „Ég held ekki. Þetta eru bara ómarktækar ályktanir og fjarstæður sem Frakkar og Bretar eru að gera sér mat úr.“
Svo gerðist það í gær að rússneskur embættismaður, Ruslan Pukhov, forstöðumaður greininga hjá varnarmálaráðuneyti Rússlands, var í sjónvarpsviðtali en virtist ekki vita að bein útsending væri hafin. Hann bað þáttastjórnendur um að spyrja ekki um þessa írönsku dróna. „Við vitum öll að þeir koma frá Íran en yfirvöld kæra sig ekki um að viðurkenna það,“ sagði hann. Eftir viðtalið var haft eftir Pukhov að mögulega hafi þetta verið sviðsett, kannski ekki. Hann muni það það hreinlega ekki enda með slæmt minni eftir að hafa fengið COVID.
Írönsku drónarnir kosta einn tíunda af því sem sambærilegir evrópskir kosta og geta borið allt að fjörutíu kíló af sprengiefni. Hægt er að fjúga þeim saman mörgum í einu, lágt, þannig að eftirlitskerfi verði þeirra ekki vör.