Unnið er að því að uppfæra rýmingar- og viðbragðsáætlanir ef Katla færi að gjósa. Vinsælir íshellar í Mýrdalsjökli hafa verið opnaðir að nýju eftir óvenju miklar jarðhræringar að undanförnu.
Það er einstakt sjónarspilið í íshellinum í Mýrdalsjökli. Snarpur jarðskjálfti reið hins vegar yfir nú nýverið sem þýddi að loka þurfti hellunum tímabundið og nú eru allir ferðamenn upplýstir um að þeir gætu þurft að yfirgefa svæðið fyrirvaralaust.
„Þeir sýna þessu bara skilning og við reynum að upplýsa þá um hvað gæti gerst. Og að það sé mögulega fyrirboði eldgoss í Kötlu,“ segir Guðjón Þorsteinn Guðmundsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Kötlu Track, sem býður upp á ferðir í íshellana.
Þótt fátt bendi til þess að Kötlugos sé yfirvofandi á þessari stundu er sá möguleiki alltaf til staðar. Gríðarlegt gjóskufall og jökulhlaup, jafnvel hamfaraflóð, myndu að líkindum fylgja því. Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir að viðbragðsáætlanir séu í endurskoðun - meðal annars með tilliti til fjölgunar ferðamanna á svæðinu.
„Fyrir tveimur árum var ráðist í gerð varnargarðs hér austan við Vík sem að á að verja byggðina fyrir hamfaraflóði í kjölfar Kötlugoss þannig að það breytir aðeins rýmingaráætlunum. Við þurfum ekki að rýma allan bæinn alveg um leið. En við erum bara, eins og alltaf, við öllu búin,“ segir Einar.
Talsverð virkni var í Mýrdalsjökli í síðustu viku og var þá í fyrsta sinn ákveðið að loka fyrir ferðir í íshellana. Hellarnir voru opnaðir að nýju á mánudag. Fréttastofa hitti ferðamenn í íshellunum en þeir virtust kippa sér lítið upp við fréttir af hræringum á svæðinu. Þvert á móti þótti ferðamönnunum nokkuð spennandi að heyra af þeim.
Leiðsögumenn bera á sér gasmæla ef hlaup skyldi koma í Múlakvísl og ef útlit er fyrir náttúruhamfarir fylgja þeir allir sömu viðbragðsáætlun.
„Þeir vita hvað skal gera og það er að koma sér að Hafursey og þannig að þeir geti komið sér í hæð ef hlaupið kemur fram með bráðum hætti. Og síðan erum við í sambandi upp á hvort þeir eigi að leggja á sandinn, annaðhvort á Klaustur eða til Víkur,“ segir Guðjón Þorsteinn.
En þetta er allt eitthvað sem erfitt er að spá fyrir um en næsta víst er að tími Kötlu mun koma, hvenær sem það svo verður. Á meðan fá ferðamenn að njóta þeirrar fegurðar sem jökullinn hefur upp á að bjóða.
Hér í spilaranum efst í fréttinni má sjá myndir úr hellunum, sem teknar eru af Guðmundi Bergkvist, myndatökumanni RÚV.