„Ég var að búast við sýknu og geng út frá því að hann verði sýknaður í Landsrétti,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, sem hlaut tíu ára fangelsisdóm í saltdreifaramálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Þrátt fyrir að þetta sé eitt stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar?
„Já. En það þarf alltaf að sanna sök þannig að yfir skynsamlegan vafa sé hafið,“ segir Sigurður.
Þungir dómar féllu í málinu í dag. Ólafur Ágúst Hraundal, var ákærður fyrir vörslu gríðarlegs magns af fíkniefnum, en hann hefur áður hlotið níu ára fangelsisdóm vegna fíkniefnalagabrota. Hann og Halldór Margeir Ólafsson voru dæmdir til tólf ára fangelsisvistar hvor. Þar með fullnýtti dómurinn refsirammann í fíkniefnamálum, í fyrsta sinn í sögunni.
Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson voru hvor um sig dæmdir til tíu ára fangelsisvistar. Geir Elí Bjarnason fékk tveggja ára dóm. Lögmenn lýstu yfir vonbrigðum með niðurstöðuna að dómsuppkvaðningu lokinni.
„Þetta er alveg geysilegt högg. Alveg geysilegt,“ segir Sigurður. Málinu verði þar af leiðandi áfrýjað.
Til marks um það hve umfangsmikið málið var þá spannar dómurinn rúmar fimmtíu blaðsíður. Þá tók það dómara drjúga stund að þylja upp þá muni sem gerðir verða upptækir vegna málsins;
saltdreifara af gerðinni EPOKE, rúm 12 kíló af kókaíni, einn millílítra af amfetamínvökva, rúm sex þúsund grömm af kannabisplöntum, um nítján þúsund grömm af marijúana, mikið magn af raftækjum; símum, tölvum, spjaldtölvum, usb-lyklum, hörðum diskum og þannig má áfram telja.
Dómurinn taldi brotin skipulögð í þaula og ásetning hinna ákærðu einbeittan.