„Það er mjög áhrifaríkt og vel gert og manni finnst pínulítið óvenjulegt og djarft í barnabók, að vera með óáreiðanlegan sögumann sem hefur þrönga sýn og mjög skýra afstöðu,“ segir Þorgeir, gagnrýnandi í Kiljunni.

Bókin Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur segir frá fimleikastráknum Álfi sem býr í Kópavogi. Þegar bókin byrjar fær yngri bróðir hans, sem er þriggja ára, einhverfugreiningu og það leggst ákaflega illa í Álf. Mótbárur hans við greiningunni skapa spennu innan fjölskyldunnar. Álfur á líka frænku sem hefur verið úthýst í fjölskyldunni og er hvorki talað við né um lengur og hann þreifar sig í áttina að henni.  

„Það sem mér fannst flott við þessa bók er hvernig við sjáum allt í gegnum Álf,“ segir Sunna Dís. „Um leið og maður samsamar sig því hvernig honum líður og hann upplifir þetta sem árás á Eika og sig, þá fer mann að renna í grun að hans lestur á raunveruleikanum sé kannski ekki alveg sannleikanum samkvæmt.“ 

„Það er mjög áhrifaríkt og vel gert og manni finnst pínulítið óvenjulegt og djarft í barnabók, að vera með óáreiðanlegan sögumann sem hefur þrönga sýn og mjög skýra afstöðu,“ segir Þorgeir. Í huga Álfs er Eiki litli bróðir hans ekki einhverfur og það er allt í lagi með Hörpu frænku. Smám saman átta lesendur sig á því að svo er ekki. „Þetta er frábærlega gert.“  

Gagnrýnendur eru sammála um að bókin sé stórskemmtileg. „Mér fannst ofsalega gaman að lesa þessa bók, bara fyrir mig,“ segir Þorgeir. „Algjörlega sammála, þetta er svona barna-fullorðins bók,“ segir Sunna.  

Sunna Dís og Þorgeir fjölluðu um Kollhnís í Kiljunni sem horfa má á hér í spilara RÚV.