Margir klóra sér enn í kollinum og velta fyrir sér hvers vegna Katar varð fyrir valinu sem gestgjafar Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2022. Tuttugu og tveggja manna framkvæmdanefnd Alþjóða knattspyrnusambandsins - FIFA - ákvað þetta fyrir 12 árum.
Þá var vitað að engir fótboltainnviðir væru í landinu og að farandverkafólk byggi þar við hörmulegar aðstæður bæði hvað varðar laun og mannréttindi. Spegillinn heldur áfram að fjalla um Katar og HM í fótbolta sem hefst 20. nóvember. Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka hefur sérhæft sig í fjármálum knattspyrnuheimsins.
Buðu gríðarlega fjármuni
„Katarar buðu hreinlega gríðarlega mikla fjármuni í alla framkvæmd mótsins og í kjölfarið að FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið myndi hagnast mikið á rekstri mótsins" segir Björn Berg. „Aðrir hafa nefnt það að Katarar hafi boðið upp á möguleikann á að spila á tiltölulega litlu svæði. Það væri skemmtilegt að fara til Katar, hægt að fara á marga leiki, stutt flug, þægilegt tímabelti og áhugaverð staðsetning".
Hrein og bein mútuþægni
„En í mörgum tilfellum virðist sem svo að persónulegir hagsmunir þeirra sem voru að kjósa hafi haft áhrif á að mótið endaði þarna. Á sama hátt og mótið endaði í Rússlandi árið 2018 þ.e. hrein og bein mútuþægni.
Svo er allur gangur á því hversu vel hefur tekist að sanna þetta, að dæma menn í fangelsi og sumir hafa verið útilokaðir frá knattspyrnuiðkun o.sv.frv. En það eru mjög fáir af þessum 22 sem hafa óflekkað mannorð í kjölfarið á þessu".
Ekki í fyrsta sinn
Björn Berg bendir á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem land eða lönd sé valin til að halda HM þó þau hafi ekki knattpsyrnulega innviði. Það átti við um Suður Kóreu og Japan þegar ákveðið var að mótið yrði haldið þar 2002. „Þeir byggðu bara nýja velli. Hver einasti völlur sem leikið var á var meira og minna nýr. Sömuleiðis í Suður Afríku 2010. Þar voru byggðir margir nýir vellir.
Svo hefur það verið þannig að þó að knattspyrnlegir innviðir séu frábærir eins og í Brasilíu, að þá eru kröfur FIFA það sterkar og ósveigjanlegar að það þurfti að endurbyggja allt saman í Brasilíu (HM 2014). Þrátt fyrir að hafa þessa innviði þá var öllu snúið við".
Katar ekki eins og önnur lönd
„Í Katar sögðu heimamenn; þetta skiptir engu máli, peningar skipta engu. En Katar er ekki eins og önnur lönd. Í Katar eru álíka margir ríkisborgarar og hér á Íslandi, en þar búa sex sinnum fleiri. Landið er troðfullt af fólki sem hefur mun minni réttindi en aðrir íbúar landsins og eru ekki ríkisborgarar og vinna við það að halda uppi lífskjörum annarra í landinu.
Þetta er sá hópur, aðallega farandverkamenn frá Suður-Asíu sem búa þarna við bágar aðstæður, hvort sem verið er að halda heimsmeistaramót eða framkvæma eitthvað annað".
Ekkert leyndarmál hvernig farið er með verkafólk
„Og þetta er ekkert einsdæmi í þessum heimshluta. Menn búa við bágar aðstæður og eru stanslaust í framkvæmdum þar sem verið er að byggja Katar mjög hratt upp. Þessir farandverkamenn eru eingöngu í því að reisa þessa velli, sem síðan að miklu leyti verða rifnir niður.
Að loknu móti verður sætafjöldi á þessum leikvöngum aðeins helmingur af því sem hann er núna. Og þetta vissi fólk. Það vissu það allir og það var ekkert leyndarmál hvernig farið var með verkafólk í Katar. Það er ekkert nýtt og var ekkert nýtt fyrir neinum".
Allt lofsungið í boðsferðum
„Katarar buðu forsvarsmönnum FIFA og knattspyrnusamböndum úti um allt, meira að segja Íslendingum, að koma til Katar og kynna sér aðstæður þar sem allt var lofsungið. Og málflutningurinn sem hefur verið notaður til þess að rökstyðja það af hverju þetta sé í lagi er sá að þeir hefðu hvort sem er verið að byggja í landinu. Leikvangarnir eru pínulítill hluti af því sem verið er að framkvæma í Katar.
Og vegna þess að HM er haldið og kastljósinu beint að landinu þá muni það bæta aðstæður þessa fólks. Þannig að annaðhvort getum við sleppt því að halda mótið í Katar og fólk búið við enn verri skilyrði eða við höldum mótið og beitum okkar kröftum til þess að gera aðstæðurnar betri".
FIFA með öll spil á hendi
„Hvers vegna FIFA sem hefur öll spil á hendi - Katar er ekki í nokkurri einustu samningsstöðu gagnvart FIFA - hvers vegna FIFA gat ekki bara sagt; fólkið sem vinnur fyrir ykkur í tengslum við mótið þarf að lifa mannsæmandi lífi. Það er ekkert mál að gera það; þið eigið nóga peninga. Hvers vegna það var ekki hægt skil ég ekki. En við erum að horfa á það að fjöldi fólks hefur dáið þarna".
Fótboltanum beitt í pólitískum tilgangi
„Grundvallaratriðið er hins vegar þetta: Mótið fer fram og það er enginn að skrópa. Landið verður fullt af stuðningsmönnum og mótið verður örugglega hin besta skemmtun. Og svo fara bara allir heim og gleyma því sem hefur átt sér stað. Það virkar að beita fótboltanum í pólitískum tilgangi. Þess vegna er barist um það að fá að halda þessi mót".
Hvað sem það kostar?
„Sama hvað það kostar í peningum og mannslífum, já" segir Björn Berg Gunnarsson.
Ítarlegra viðtal við Björn Berg Gunnarsson má heyra í spilaranum hér að ofan