„Þau eru á leið út úr bænum, þar sem landslag mun vera að finna á báðar hendur og jafnvel þverhnípt fjöll sem oftar en þau kæra sig um hafa verið spurð til nafns.“ Örn Elvar Arnarson fer með lesendur í bílferð um lönd ljóðsins.


Örn Elvar Arnarson skrifar:

Of stór í litlum bíl, feta þau sig um veg, með kræklóttum balletttám er kúplingu þrýst, gír skipt í leiðslu. Of stór í litlum bíl ræða þau heim ljóðsins, um stöðu febrúarblárra augna á hvítum blöðum. Öll þessi orð sem hanga á þeim eins og rjúpur á jólunum, hanga meira utan um háls þess sem kom til þeirra allsnakið í nótt og leiddi þau fram úr. Þau eru á leið út úr bænum, þar sem landslag mun vera að finna á báðar hendur og jafnvel þverhnípt fjöll sem oftar en þau kæra sig um hafa verið spurð til nafns. Þau aka af stað og fyrr en varir fara þau með ljóð um þúsund kossa og leiftur frá leiðarstjörnu fyrir vesturfara, þau fara með ljóð um Gönguna löngu og um Sonju á Drottningargötu 83 a. Of stór í litlum bíl fara þau með veggjum og fletta upp ljóði í vasabroti um bergfléttu úti í löndum. Það eru úreltar heilræðavísur í hanskahólfinu og þvert yfir vegakort hefur verið krotað ljóð um saklausa elskendur sem kinn við kinn sofa í faðmlögum og tala um framtíðina í svefnrofunum, um framtíð sem að endingu þau eiga hvort um sig enga hlutdeild í. Frásögn af því hvernig samlífi þeirra var skyndilega rofið því það brast á með beinni útsendingu frá blaðamannafundi þar sem greint var frá stöðu mála og bornar voru upp sakir skýrari dráttum en fólk elskt að ljóðum á að venjast. Það er alltaf eitthvað sem kippir í stýrið og stefnir á hengiflugið. Vindurinn er kröfuharður dansherra og hvernig sem hann blæs vill hann einn ráða för, þau gíra sig niður, hægja ferðina, enda komin á ystu nöf, þau finna sig á hálum ís, þau voru við það að kasta slæðunum út um gluggana. Leiðin er löng, lengri en áður var talið því það þarf að þvera nokkur mannhöf, afsakandi sig út í rauðan dauðann eins og sá sem þarf að rjúka úr miðri sætaröð í leikhúsi gerir jafnan.

Ef lagt er í hann að næturlagi er óljóst hvað það er sem tekur við eftir hvert hringtorgið á fætur öðru. Þau aka fram hjá álveri sem virðist aldrei ætla að enda, regnið sem trommar þak þess gufar upp jafnóðum, bjarminn frá því er notalegur, þar er heitt á könnunni, þau telja að á næturvöktum þarna sulli bikiníklætt verkafólk bræddu áli hvert á annað í lesbískri leikgleði í órum gagnkynhneigðs vansvefta verkamanns. Augun eru glennt, þau eru blóðpumpandi aldinávextir, fjórar stjörnur límdar á framrúðuna, sjáöldrin eru þanin segl á ensku hamfaraolíumálverki, regnið lemur bílinn, droparnir leika sér eins og börn á malbiksteppinu, merkingarnar á skiltunum við veginn eru með öllu ógreinilegar enda máluð vatnslitum sem leysast upp í eina litleysu sem verður að fínu ryki í vegköntunum, þegar einhvern tímann verður þurrt að kalla. Droparnir renna í ljóðlínum niður rúðurnar. Þetta eru línur úr ljóðum um upplitað sólskin og glitrandi haf krumpaðrar biblíumyndar í lófa ungs manns í strætó, þarna er ljóð um kortlagningu fæðingarbletta og nokkrar línur úr ljóði um það að þvo sér ástfanginn í dagrenningu eftir samfarir næturinnar, gott ef ekki að þarna sé ein eða tvær hækur á afturrúðunni ein þeirra er alla vega á þann veg að fjöllum hærra fer frásögn af álveri sem hvarf af yfirborði jarðar og að þau hafi séð það. Kílómetramælirinn telur, það hefur enginn átt við hann, ekki enn. Þau þræða sig um þéttriðið æðanet landsins, var þetta annars hæka en eins og stendur telja þau sig stödd í ósæð þjóðarlíkamans.

Of forn í nýjum bíl vekja þau máls á hvort nú á tímum fæðist ekki óvenju fáir síamstvíburar en þau séu nú lánsöm að hafa fundið hvort annað, ferðafélagarnir, það sé engu líkara en að þau hafi verið aðskilin við upphaf tímatalsins. Leðuhanskaðar krumlur úr reifara halda um stýrið, heldur þeim traustataki rásandi á mottunni, heldur þeim réttum megin á veginum án þess þó að vita hvert þau fara vitandi að við skilyrði sem þessi er ávallt dansað á þunnri línu. Baksýnisspeglinum er hagrætt eins og hnupluðu ritsafni Jóhannesar úr Kötlum. Þau þurfa að hafa að hafa annað augað í fortíðinni. Þau leggja landið undir sig og kjafta sig í gegnum heilan heim óljósra þúfna, mela og hæðóttra hraundranga sem að baki þeim hafi runnið saman við svarta skikkju næturinnar sem hokinn gengur um beina, þau geta ekki með góðu móti gert því skil sem á vegi þeirra hefur orðið nema með því að geta í eyðurnar, á leið þeirra um nokkur af þeim sjóreknu plássum sem þau hafa álpast um hafa þau slaufað þeim þegjandi og hljóðalaust í æðahnúta að baki sér. Á þeim stöðum hafa þau virt fyrir sér af hálfum hug flagnaða málningu húsa í skyni flöktandi ljósastaura og horfst í augu við hrafna sem dvelja langdvölum á ryðguðum loftnetum, á bílaþvottaplani eins þessara staða mátti þekkja Venus frá Willendorf í flíspeysu á ráfi. Í stöku flæðarmáli hafa þau séð bregða fyrir fegurðardísum þöglu myndanna. Bíllinn mallar seið, vélarhlutar kveðast á, þau óska sér að þetta andlega egglos í þessum slyddujeppa taki aldrei enda en í þeirri nýju dögun sem fyrir framan þau dregur fána sinn að húni geta þau ekki varist djöfulganginum sem berst frá bílnum enda er bara miðvikudagur og lífið gengur sinn gang og allt það en traustvekjandi fullyrðir annað þeirra að þetta sem heyrist séu bara hamarshöggin úr hamri föður hennar, þetta séu hamarshöggin sem glumdu þegar hún var enn í móðurlífinu, þegar hún var bara lítil ferskeytla, ort til hálfs í skáldaða móður og faðir hennar í sinni limrugerð, þakti hvern auðan blett á veggjum heimilisins með innrömmuðum myndum af englum.

Það er ljósagangur í mælaborðinu, einhver tákn, letur með óráð, ekki beinlínis framandi en auðvelt er að gruna að slíkt finnist aðeins í ókönnuðum hellum á botni sjávar, þau hunsa það þó glói, jafnvel blikki til þeirra, það stoðar lítt að hafa áhyggjur það sé ekkert sem þau geta gert enda í ferð án fyrirheits að eigin sögn þau raðreykja smyglaðar sígarettur linnulaust enda engin með í för sem getur orðið fyrir meiri skaða en nú er raunin, engin með í för nema styttan af Tómasi Guðmundssyni sem situr ekki lengur og virðir sér fyrir ástir og örlög varpfuglanna í miðbæ Reykjavíkur, hann situr hlekkjaður í sinni eigin eftirmynd með krosslagða fætur í aftursæti bifreiðar með brjóstmynd Þorsteins Valdimarssonar í fanginu og þau slá um sig öskunni kæruleysislega, já og slá um sig með tóbaks vísu séra Hallgríms, hósta og ræskja sig með samskonar millibili og gulu stikurnar meðfram veginum með hósta sem fenginn er að láni úr safni Ríkisútvarpsins og geymir ekkert nema þögn tónleikasala og hátíðlegt andatak í bland við hósta og kverkaskítsþreifingar unnenda klassískrar tónlistar á segulbandi. Ef til vill er bara miðvikudagur og lífið gengur sinn gang en þau hafa bara misst sjónar á því, villst af leið, glatað samhenginu, tapað þræði í ofhlöðnu myndmáli.

Örn Elvar Arnarson flutti pistill sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.