Mennirnir sem lögðu á ráðin um að myrða Guðlaug Þór Þórðarson töldu að hann væri enn utanríkisráðherra. Honum var verulega brugðið að frétta af áformum mannanna.
Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk. Þeir ræddu sín á milli um að myrða Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra. Hann var kallaður til vitnaleiðslu hjá lögreglu í lok september, skömmu eftir að mennirnir voru handteknir.
„Þetta er svakalega óþægilegt. Það verður bara að segjast. Það er það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvernig á maður að útskýra þetta fyrir konunni og börnunum. Þetta er eitthvað sem við viljum ekki sjá í okkar samfélagi, höfum ekki séð og vonandi verður þetta bara einstakt atvik sem við sjáum aldrei aftur,“ segir Guðlaugur Þór.
Geðlæknir leggur mat á hversu mikil alvara var í skilaboðum sem gengu mannanna á milli. Þeir ræddu einnig um að ráðast á fleira fólk og stofnanir.
Breytir þetta einhverju gagnvart þér og öðrum ráðherrum og þingmönnum hvað varðar öryggisráðstafanir?
„Það á eftir að koma í ljós en ég vona að okkur beri gæfa til að nálgast þessi mál með yfirvegun. Við þurfum að taka umræðu um þetta alltaf, þó að þessi mál hafi ekki komið upp. Það er algjört markmið hjá okkur að þjóðfélagið Ísland verði eins og það hefur verið, ég er ekki að tala um að við séum fullkomin, langt frá því, en þetta hefur verið mjög gott,“ segir Guðlaugur.
Var rætt um aðra ráðherra í þessum samtölum?
„Ekki mér vitandi. Þær upplýsingar sem ég fékk er að þeir töldu að ég væri utanríkisráðherra þó að þetta hafi verið í ágúst.“
Guðlaugur segir að mikilvægt sé að ræða mál sem þessi af yfirvegun og láta ekki hræðslu, ótta og heitar tilfinningar stjórna umræðunni.
„Því þá höfum við tapað einhverju sem við viljum alls ekki tapa.“
Viðtal við Guðlaug Þór má sjá hér að ofan.