Íbúar í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hrukku upp með andfælum á sjöunda tímanum í morgun við sprengjugný í miðborginni. Að minnsta kosti fimm svokölluðum kamikaze-drónum, troðfullum af sprengiefni, var flogið á skotmörk þar sem þeir sprungu. Fjórir létust í árásunum og nítján var bjargað úr húsarústum.

Vitali Klitschko, borgarstjóri í Kænugarði, greindi frá því að Rússar hefðu sent 28 dróna til borgarinnar, 23 hefðu verið skotnir niður. Hann sagði að markmið innrásarliðsins væri að slökkva á borgum og bæjum í Úkraínu, leggja lífæðar samfélagsins í rúst, þar með talið rafkerfið, og láta fólk þannig finna fyrir kuldanum í vetur.

Dróni flaug yfir húsið

Olga, sem býr í Kænugarði, sagðist í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC hafa vaknað í morgun þegar loftvarnaflautur voru þeyttar. Hún fór út á svalir og sá dróna koma fljúgandi. Skömmu seinna heyrði hún mikla sprengingu í tveggja til þriggja kílómetra fjarlægð. Olga sagði að Úkraínumenn kölluðu drónana mótorhjól því hljóðið sem þeir gefa frá sér er svipað og í mótorhjólum. Hún sagði að þeir flygju bæði lágt og rólega, ekkert eins og þotur sem koma og fara á örskotsstundu. Dróninn flaug bara rólega yfir húsið hennar.

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem er búsettur í Kænugarði, lýsti aðdraganda árásarinnar nánast eins og Olga þegar rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás tvö. Hann lýsti hljóði drónanna eins og mali í skellinöðru og síðan kæmi sprenging.

Drápstæki frá Íran

Drónarnir sem Rússar nota í árásum á Úkraínu eru af gerðinni Shahed-136, framleiddir í Íran. Þeir eru smíðaðir í flugvélaverksmiðjum íranska ríkisins, HESA, og hafa verið í notkun síðan í fyrra. Fyrstu fréttir af Shahed-drónunum eru raunar frá árinu 2012. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi fyrst frá þeim 29, september það ár.

„Íranar hafa smíðað litla ómannaða flugvél sem hægt er að nota til njósna og árása. Íranska ríkissjónvarpið greindi frá þessu í gærkvöld. Vélin, sem kölluð er Shahed 129, getur að sögn verið á lofti í sólarhring og ráðist á skotmörk í 2000 kílómetra fjarlægð. Íranar tilkynntu í apríl að þeir væru byrjaðir á smíðinni. Fyrirmyndin var bandarísk njósnavél sem Íranar komust yfir að því er virtist óskemmda í desember í fyrra. Sú vél getur flogið mjög hátt og mjög erfitt eða útilokað er að greina hana á ratsjám.“

Reiðir en ekki hræddir

Olga, sem við heyrðum í áðan, segir að Úkraínumenn bregðist nú orðið allt öðru vísi við árásum núna en þegar þeir réðust inn í landið í febrúar. „Núna erum við mjög reið,“ segir hún. „Við erum reið því að þeir ráðast á viðkvæma innviði landsins, en ekki hernaðarlega mikilvæg skotmörk. Hér í Úkraínu segjum við: Ef þið viljið vera alveg örugg fyrir flugskeytaárásum Rússa felið ykkur þá á hernaðarlega mikilvægum stað.“

Óskar Hallgrímsson sagði í viðtalinu í Morgunútvarpinu að borgarbúar hefðu brugðist öðru vísi við árásinni í morgun en fyrir réttri viku. Fólki finnist það vera þokkalega öruggt. Hann sagðist hafa farið út eftir árásirnar, í skotheldu vesti með hjálm og fylgst með þar sem verið var að leita að fólki í rústum. Fólk hafi verið hið rólegasta og fengið sér latte og smjöreigshorn á kaffihúsum áður en það hélt í vinnuna.

Þræta fyrir að hafa selt dróna

Íranskir ráðamenn ítrekuðu í dag að þeir hefðu ekki selt Rússum neina dróna. Shashank Joshi, sérfræðingur tímaritsins Economist í varnarmálum, var inntur eftir því í dag hvaða sannanir lægju fyrir því að drónarnir væru íranskir.

„Það hafa einfaldlega fundist drónaflök sem sérfræðingar hafa rannsakað og kveðið upp úr með að væru írönsk,“ sagði Shashank Joshi. „Flóknara var það ekki.“