Tónlistarkonan Árný Margrét hefur vakið töluverða athygli á árinu, frá því hún gaf út lög sín Intertwined og Akureyri. Nú er farið að styttast í að fyrsta breiðskífa hennar í fullri lengd komi út en sú hefur fengið nafnið They Only Talk About the Weather og kemur út 21. október.
Árný Margrét Sævarsdóttir er að vestan, frá Ísafirði, og byrjaði ung að fást við tónlist. Fyrstu skrefin voru í tónlistarskólanum á Ísafirði þar sem hún lærði á píanó en upp úr fermingu átti gítarinn hug hennar allan. Hún byrjaði síðan að semja sín eigin lög á gítarinn upp úr 17 ára aldri.
Fyrstu skrefin í upptökum á tónlist tók hún síðan með tónlistarmanninum Högna Egilssyni sem fékk Árnýju til að syngja með sér lag úr kvikmyndinni Þriðja pólnum. Næstu skref voru tekin með upptökustjóranum Guðmundi Kristni Jónssyni úr Hjálmum sem hefur unnið frá upphafi með Ásgeiri Trausta.
Árný hefur unnið jafnt og þétt síðan með Kidda Hjálm og sent frá sér þrönskífuna Intertwined auk fjölda annarra laga sem hafa vakið töluverða athygli og verða eflaust einhver á plötunni væntanlegu.
Plata vikunnar að þessu sinni er væntanleg plata Árnýjar Margrétar, They Only Talk About the Weather, en hún verður spiluð og kynnt af Árnýju í heild sinni á eftir 10 fréttum í kvöld á Rás 2.