Sextán ára fór Sjón í sumarbúðir í Sovétríkjunum. Á leiðinni stoppaði hann í Kaupmannahöfn og komst þar í plötubúð. Hann fór með troðfulla ferðatösku af pönki til Sovétríkjanna þar sem hann dreifði tónlistinni.
Rithöfundurinn, uppreisnarseggurinn og grúskarinn Sjón er sextugur í ár. Af því tilefni gefur Forlagið út heildarsafn ritverka hans. Sjón hefur gefið út 13 ljóðabækur og tíu skáldsögur og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín, meðal annars Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sjón heillaðist ungur af súrrealisma og segir þekkingarleit sína og menningaráhuga alltaf hafa verið óseðjandi. „Það er svolítið erfitt að rekja svona hluti en ég veit að ég var bara krakki þegar ég heillaðist af Salvador Dalí og Alfreð Flóka,“ sagði Sjón í Svipmynd Víðsjár á Rás 1.
Uppfullur af fölskum minningum eftir lestur tímarita
Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón, var fróðleikfúst barn. Í sumardvöl hjá ættingjum á Eskifirði komst hann yfir gömul tímarit. „Þegar ég var á Eskifirði á sumrin, þar sem ég dvaldi yfirleitt góðan hluta af sumrinu hjá fjölskyldu, þá komst ég í miklar birgðir af Vikunni og Fálkanum sem náðu alveg aftur til ‘58 eða eitthvað svoleiðis.“ Hann drakk í sig þessi tímarit. „Það hefur gert það að verkum að ég hef alls konar minningar og vitneskju sem maður átti ekkert að hafa ef maður var fæddur ‘62. Ég er samtímamaður alls konar fólks sem var miklu eldra en ég.“ Hann segir að ýmsir viðburðir sem gerðust tæknilega fyrir hans tíma séu honum ljóslifandi í minni. „Ég er uppfullur af alls konar fölskum minningum.
Þarna komu áhrifavaldar æsku- og unglingsára Sjóns saman. „Og ég byrja aftur að skoða súrrealismann og svo allt í einu er maður orðinn súrrealisti 16 ára.“
Tengdust alþjóðlegu neti súrrealista
Sjón stofnaði súrrealistahópinn Medúsu í Breiðholtinu undir lok áttunda áratugarins ásamt vinum sínum og þeir komust í samband við hópa súrrealista um allan heim. Sjón komst í eins konar læri hjá Alfreð Flóka sem víkkaði heim hins unga og upprennandi listamanns. „Ég gerðist lærisveinn Alfreðs Flóka. Við kynnumst þegar ég er 17 eða 18 ára og hann er svo elskulegur að hann býður mér í kaffi til sín.“
Alfreð Flóki var á sínum tíma einn frægasti maður landsins og umdeildur myndlistarmaður og teiknari. Hann var undir áhrifum súrrealisma og á skjön við ríkjandi hefðir í myndlist á Íslandi. „Flóki byrjar að gera teikningar sem eru undir áhrifum frá súrrealismanum og impressjónismanum, úrkynjaðri list og ýmsum afkimastraumum og slær í gegn á sama tíma og hann hneykslar alla þjóðina með mjög djörfum myndum.“ Myndefni hans var djarft og myrkt og oft erótískt. „Hann var mjög umtalaður maður og þetta var ekki mjög borgaralegt. En á sama tíma voru þetta borgararnir sem voru að kaupa þetta og sýningarnar hans seldust upp á augabragði.“
Flóki lánaði Sjón gjarnan bækur og tímarit. Eitt sinn lét hann fá tímaritið Melmoth, sem honum hafði verið sent, „og hann sagði, þú hefur kannski gaman af því að setja þig í samband við þetta fólk.“ Sjón fylgdi ráðum læriföður síns. „Ég gerði það og þar með vorum við, litli Medúsuhópurinn í Breiðholtinu, komin í samband við þessa súrrealistahópa um allan heim.“
Ekkja upphafsmanns súrrealismans vakti Sjón hugljómun
Sjón skrifaðist á við fólk úr öllum heimsálfum og heimsótti pennavini sína á ferðalögum um Evrópu. Fyrir röð tilviljana bankaði hann upp á hjá Elisu Breton, ekkju Andrés Breton upphafsmanns súrrealismans, á ferðalagi frá París til Barselóna. „Ég var allt í einu einn í París og hugsaði með mér, ókei ég fer bara einn frá París til Barselóna. Þegar fólkið sem að ég var að hitta í París heyrði það þá sagði einn þeirra af hverju kemur þú ekki við hjá Elisu Breton?“
Þessi sameiginlegi vinur þeirra Elisu hringdi á undan Sjón. „Svo bara var ég mættur þangað.“ Í heimsókninni til Elisu varð Sjón fyrir eins konar uppljómun. Elisa sendi hann niður að nálægri á og hvatti hann til að fá sér þar sundsprett. Þegar hann er kominn út í ána sér hann stein og ákveður að klifra upp á hann. „Ég sit þar og hlusta á vatnið og niðinn í laufunum og þá heyri ég flögr við eyrað og svo hættir það. Þá lít ég við og þá situr drekafluga á öxlinni á mér. Þetta var svo heilagt augnablik, þar sem ég sat þarna með drekaflugunni, við sátum þarna tvö og vorum eitt með alheiminum.“ Á þessu augnabliki gerðust einhverjir töfrar innra með Sjón. „Ég hugsaði með mér, núna náði ég einhverju sambandi sem mun vara um eilífð.“
Fór með fulla ferðatösku af pönki til Sovétríkjanna
„Það var bara þannig að ef að þú ætlaðir að fara inn í menninguna þá tengdir þú þig út í heim og dróst eins mikið til þín og þú gast,“ segir Sjón. Hann segist alltaf hafa verið óseðjandi menningarneytandi og það var honum mikilvægt frá unglingsaldri að kynna sér fjölbreytta og forvitnilega menningu. „Því óvenjulegra og sérstakara sem að það var, því hamingjusamari varð maður.“
Sjón las allt sem hann komst yfir og varð snemma hugfanginn af kvikmyndum. „Fyrsta kvikmyndin sem að ég sá var Mary Poppins og það breytti mér fyrir lífstíð.“ Fimmtán ára gekk hann í Fjalaköttinn, kvikmyndaklúbb framhaldsskólanna. Þar sá hann meðal annars myndir eftir Kurosawa og Agnes Verda. „Alls konar kvikmyndir sem kenndu manni upp á nýtt hvað kvikmyndir eru.“
Þegar Sjón var 16 ára var pönkbylgjan í algleymingi. Árið 1977 fór hann til Sovétríkjanna með sex öðrum íslenskum krökkum á Alþjóðamót æskunnar á Krímskaga. „Í þessari ferð flugum við í gegnum Kaupmannahöfn og þar komst ég í plötubúðir og ég fór með úttroðna ferðatösku af pönki til Sovétríkjanna.“ Eitt kvöldið bað starfsmaður sumarbúðanna eftir að fá plöturnar lánaðar. „Ég þorði ekki að láta þær frá mér af því að ég hélt að þau ætluðu kannski að taka þær og eyðileggja þær. Svo ég náði í ferðatöskuna og fór með honum ofan í kjallara og þar sat maður tilbúinn, tveir, þrír, með stórt spólutæki og svo tóku þeir upp allar plöturnar.“ Það má leiða líkur að því að eitthvað af þessum plötum hafi farið í dreifingu í Sovétríkjunum og fengurinn frá Kaupmannahöfn ruddi því pönkinu rúms þar í landi.
Byggir ókræsilegar persónur á sjálfum sér
Í verkum sínum blandar Sjón saman áhrifum úr öllum áttum og býr að áratugalöngu menningargrúski sínu. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og skáldsagna, dægurlagatexta, kvikmyndahandrita og leikrita. Hann segir lykilatriði í skáldskapnum að finna hið sammannlega. „Það hlýtur alltaf að vera þannig að maður eigi eitthvað sameiginlegt með öðrum, það er einhver sameiginleg reynsla sem við getum mæst í.“
Hann segir sérstaklega mikilvægt að finna mannlega vinkla á persónum sem eru ef til vill fyrirlitlegar. „Ég hef líka sagt að því ókræsilegri sem persónan er þeim mun mikilvægara er að ég byggi hana á einhverju í sjálfum mér.“ Hinn ungi Gunnar Kampen, aðalpersóna bókarinnar Korngult hár, grá augu, reynir í bókinni að koma á fót nýnasistahreyfingu í Reykjavík í lok sjötta áratugarins. „Hann er besta dæmið um það hvernig ég byggi ókræsilega persónu á sjálfum mér. Það er eiginlega allt í því hvernig hann byggir upp hreyfinguna byggt á því hvernig ég starfaði í Medúsu, í öllum þessum samskiptum í að byggja þennan hóp upp.“
Sjón þykir forvitnilegt að fjalla um persónur sem eru á jaðri samfélagsins. „Mikið af mínum persónum eru, sérstaklega aðalpersónur í þeim bókum sem að ég hef skrifað, utangarðsfólk. Þetta er fólk sem hefur lent á skjön við heiminn.“ Sjón segist upptekinn af því að hvert og eitt okkar hafi leyfi til að skilgreina heiminn en um leið og manneskja nýtir sér það leyfi sé hún komin upp á kant við heiminn. „Það er þessi innri veruleiki, þessi innri heimur, sem við erum öll með. Þegar hann mætir hinum ytri heimi, sem er samvinnuverkefni, þá fara áhugaverðir hlutir að gerast.“ Hann segir meiri átök búa á jaðrinum þar sem hið óvenjulega mætir hinu almenna. „Þetta er fólkið sem ég hef áhuga á.“
Rætt var við Sjón í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.