Vel á annað hundrað sjúklinga yngri en sextíu og sjö ára eiga ekki athvarf í heilbrigðiskerfinu nema innan um aldraða á hjúkrunarheimilum. Formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu segir bráðnauðsyn að hugsa betur um þennan hóp með viðeigandi úrræðum.

146 manns yngri en 67 ára eru á hjúkrunarheimilum landsins, samkvæmt nýjum tölum frá Landlæknisembættinu.

María Fjóla Harðardóttir er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
„Við höfum verið að gera athugasemdir við það vegna þess að hugmyndafræði hjúkrunarheimila er hugsuð fyrir aldraða einstaklinga. 
Við myndum gjarnan vilja hafa sérúrræði fyrir unga einstaklinga.“

Við sögðum frá því í fréttum í gær að tæplega sextug kona með MS-sjúkdóminn þurfi að yfirgefa hjúkrunarheimili þar sem hún hefur búið undanfarin tvö ár þar sem ekki er hægt að koma til móts við þarfir hennar. Hjúkrunarheimilum er þó skylt að taka við þessum hópi. Dæmi eru um niður í rúmlega þrítugt fólk á hjúkrunarheimilum.
MS félagið hefur vakið athygli stjórnvalda á því í á þriðja ár að betra úrræði þurfi fyrir yngri aldurshópa sem þurfa mikla umönnun.

Hjördís Ýrr Skúladóttir er formaður MS félagsins
„Þetta er bara staða sem er grafalvarleg og við sættum okkur ekki við. Þetta er engan veginn í lagi.“

María Fjóla segir félagslegar þarfir ólíkra aldurshópa ekki þær sömu.
„Félagslegar þarfir eru hreinlega aðrar. Umhverfið er annað. Þau eiga jafnvel fjölskyldu og lítil börn og árin sem eru eftir eru talsvert mörg. Við verðum að hafa í huga að búa til umhverfi sem að hentar þessum hópi. Og leyfa þeim sjálfum að hafa um það að segja hvernig það umhverfi á að vera.“

Hjördís Ýrr þekkir MS sjúkdóminn af eigin raun.
„Ég er sjálf með MS og ef ég spegla mig í svona aðstæðum þá er þetta engan veginn viðunandi, engan veginn nógu gott og að sjálfsögðu á ég eða einstaklingur sem þarf á þjónustu að halda ekki heima inni á hjúkrunarheimili þar sem meðalaldurinn er nálægt níræðu. Það segir sig bara sjálft.“

Hjördís Ýrr segir fólk eiga að hafa val um búsetu. Það séu einfaldlega mannréttindi.
María Fjóla segir hægt að skapa aðstöðu fyrir yngri aldurshópa í sérrými hjúkrunarheimila með séraðstöðu og búnaði komi stjórnvöld að borðinu. Fjörutíu þúsund krónur sem greiddar séu frá ríki fyrir hvern og einn dugi í raun ekki í sérúrræði.