Tvennt var flutt á Landspítala eftir árás þriggja fjórtán ára drengja í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld. Drengirnir réðust á fólk af handahófi á þremur stöðum í miðbænum. Drengirnir spörkuðu meðal annars í höfuð fórnarlamba sinna og ógnuðu þeim með eggvopni. Ekki fást upplýsingar um líðan fórnarlambanna en málið var afgreitt með aðkomu barnaverndar.
Margrét Valdimarsdóttir félags- og afbrotafræðingur sagði í fréttum sjónvarps í ýmsar vísbendingar um aukið ofbeldi og vopnaburð meðal unglinga. „Samkvæmt frásögnum kennara í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi og samkvæmt frásögnum lögreglu um svona ofbeldi unglinga sem hefur ratað á samfélagsmiðla, upptökum, þá erum við að sjá einhverja aukningu núna og það eru svona einhverjar vísbendingar um það að fleiri unglingar nú en áður séu að bera vopn.“
Margrét telur að ástæðurnar að baki þessari aukningu geti verið nokkrar. „Það eru vel þekktar orsakir ofbeldis ungs fólks eins og annarrar óæskilegrar hegðunar og meðal þeirra orsaka er mikil eftirlitslaus samfélagsmiðlanotkun. Og þetta hefur aukist mjög mikið á íslandi og það hefur líka aukist hlutfall þeirra unglinga á Íslandi sem segja til dæmis að foreldrar þeirra setji ekki reglur um hvað þau eru að gera heima og að heiman og hvenær þau eiga að vera komin heim á kvöldin. Eftirlit foreldra skiptir máli.“