Landstjóri Kanada, Mary Simon, telur að Kanadamenn séu reiðubúnir í samtal um skelfilega meðferð á börnum í kaþólskum heimavistarskólum á árum áður. Fólk hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins fyrr en það sá fjöldagrafir í sjónvarpinu í fyrra. 

Hún var einn aðalræðumanna þegar þing Hringborðs norðurslóða var sett í Hörpu á dögunum. Simon er fyrsta manneskjan af frumbyggjaættum sem gegnir embættinu. Hún hefur hlýtt á sögur margra sem misstu börn sín í heimavistarskólum á vegum kaþólsku kirkjunnar. Úttekt árið 2008 leiddi í ljós að fjögur þúsund börn lifðu ekki af dvölina í skólunum.

„En þar sem ekki allir lesa skýrslur eða fjölmiðla tók Kanada þessu ekki eins og við bjuggumst við, með því að segja að við þyrftum að gera eitthvað. En þegar ómerktu grafirnar fundust víða í samfélögum frumbyggja varð vitundarvakning um hversu alvarlegt málið var.“

Fyrstu fjöldagrafirnar fundust í fyrra og nú hafa á annað þúsund grafir fundist. Frá 1883 til 1996 voru hundrað og fimmtíu þúsund börn af frumbyggjaættum tekin frá fjölskyldum sínum og send í skólana. Þar átti að aðlaga þau að kanadísku samfélagi og þeim var bannað að tala tungumál sitt.

„Ég hef farið þangað sem lík heimavistarskólabarnanna fundust, að þessum ómerktu gröfum og verið með fjölskyldunum sem komust að því að börn þeirra hefðu ekki bara gufað upp. Þau létu lífið í heimavistarskóla og þau fréttu það þarna. Öll þessi áföll, og þegar ég talaði við fólkið var sársaukinn bersýnilegur.“

Simon segir mikilvægt að fólk fái stuðning í sorginni á sama tíma og Kanadamenn geri málin upp. „Þetta er mikilvægur tími í sögu okkar í Kanada.“