Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafnar því að umræðan um útlendingamál á Íslandi hafi alið á ótta og andúð gagnvart flóttafólki. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir óábyrga orðræðu um flóttafólk og hefur verið sakaður um að fara með rangfærslur um málaflokkinn.

„Það er hægt að hafa svona orðræðu eins og viðhöfð er að ég sé að slá pólitískar keilur; að ég sé að nýta mér ástand; að ég sé að slá ryki í augun á fólki; að ég sé að gera meira úr hlutunum heldur en þörf er á. Ég er ekki að gera neitt nema fara með staðreyndir. Það getur varla talist vera misjafn málflutningur að tala við fólkið í landinu og tala um stöðuna eins og hún er,“ sagði Jón Gunnarsson í Silfrinu í dag. 

Hann segir að umræðan snúist fyrst og fremst um skipulag við móttöku flóttafólks á Íslandi og að uppfylla verndarsamning Sameinuðu þjóðanna. 

Frumvarp ráðherra leysi enga vanda

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir með aukinni komu flóttafólks snúi að innviðum, og að tillögur dómsmálaráðherra leysi þau ekki.

„Tilefni þessarar öfgafullu umræðu sem hefur verið sett af stað er augljóslega þetta frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn er að leggja fram í fimmta skipti, og það er alveg ljóst að það á að ganga ansi hart fram núna til að ná því í gegn,“ segir Arndís. 

„Fyrst var talað um að það frumvarp snerist um skilvirkni... að auka skilvirkni í kerfinu, en svo er búið að sýna fram á að það mun ekki auka skilvirnki. Það mun líklega vinna þvert gegn því. Þá er gripið til þessa frasa um að verið sé að ræða um sérreglur á Íslandi sem þufri að breyta. En mig langar að vekja athygli á að þessar breytingar sem eru lagðar til í þessu frumvarpi leysa enga þá vanda sem við stöndum frammi fyrir með aukinni komu flóttafólks.“

Telur að ástandið sé ekki stjórnlaust

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi dómsmálaráðherra segir að stærstur hluti flóttafólks sem kemur til Íslands komi hingað vegna aðgerða stjórnvalda í útlendingamálum.

Mikilvægt sé að styrkja innviði og móttökukerfi til að taka á móti fjöldanum. Hún segist taka undir mikið af því sem Jón Gunnarsson, núverandi dómsmálaráðherra, segir um útlendingamál.

„Hins vegar held ég að við séum ekki komin í stjórnleysi. Stjórnleysi er stórt orð,“ segir Guðrún og vísar í orð Jóns Gunnarssonar þar sem hann sagði að ástandið í útlendingamálum þessa dagana sé stjórnlaust.

„Við eigum hér stofnanir og kerfi hér á landi og ég held að það sé mikilvægt að þær hafi haldið. Það hefur reynt á þær en það er ekki stjórnleysi.“

Hún segir að ástandið sé talsvert verra annars staðar í Evrópu, til dæmis í nágrannaríkjum Úkraínu og við Ermasund, og að það séu líkur á að fjöldi fólks á flótta muni aukast á næstunni, meðal annars með tilkomu loftslagsvanda.