Að sögn þeirra sem standa Sigga Sigurjóns leikara næst á hann það til að vera stríðinn. „Þetta er ákveðin íþrótt, að hrekkja fólk, sem gagnast manni stundum vel. Þetta reynir á hugmyndaflugið og leiklistina um leið,“ segir hann.
„Hann getur verið svakalegur púki,“ segir Jóhann Sigurðarson leikari. Þeir hafa verið góðir vinir um árabil. Fleiri sem standa Sigga nærri taka undir orð Jóhanns um að Siggi eigi það til að vera hrekkjóttur og þyki gaman að stríða fólki.
„Einhver myndi kannski segja að það væri galli við Sigga hvað hann er lyginn, en það er bara partur af hans húmor. Hann hefur bara svo gaman af því að aðeins taka fólk í bólinu og stundum að fara frjálslega með sannleikann til þess að fá viðbrögð,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, Spaugsstofubróðir Sigga.
Birgittu Birgisdóttur, leikkonu, er minnisstæð saga af Sigga þar sem hann náði að hrekkja grunlausa sminku í leikhúsinu sem vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Siggi óð inn í sminkherbergið og skammaðist yfir því að skeggið sem var búið að festa á hann héldi illa. „Unga sminkan bara guð minn góður, hann er náttúrulega frægur leikari og bara jájájá. Svo fara allir að hlæja og unga sminkan bara, bíddu, af hverju eru allir að hlæja? Og svo bara já, hann er að grínast.“ Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikkona og leikstjóri, segir að Siggi viti alveg hvernig fólk í kringum hann skynjar hann. „Og af því að hann er algjör húmoristi og skemmtilegur getur hann stundum leikið sér með þetta.“
Siggi sver þetta ekki af sér og segist sérstaklega finnast skemmtilegt að grínast í fólki sem er ginnkeypt fyrir fíflalátunum. „Þetta er ákveðin íþrótt, að hrekkja fólk, sem gagnast manni stundum vel. Þetta reynir á hugmyndaflugið og leiklistina um leið,“ segir hann kíminn. Pálmi Gestsson hefur þekkt Sigga í mörg ár og oft orðið fyrir barðinu á hrekkjum hans. „Hann hefur stundum náð mér svolítið. Hann segir að ég sé svo hrekklaus og trúgjarn maður og það sé svo gott að ljúga að mér,“ segir Pálmi. „Maður kastar í þann hyl sem maður veit að fiskurinn er. Það eru nokkrir í kringum mig sem eru mjög duglegir að bíta á,“ segir Siggi. „Þá náttúrulega freistast maður til þess að kasta. Ég veit að sumir hafa orðið fyrir barðinu á mér. Allt er þetta nú vel meint.“