Frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingalög er skref til baka og engin sátt ríkir um það, að mati Kristjönu Fenger lögfræðings hjá Rauða krossinum. Hún sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun frumvarpið taki ekki á þeim vanda sem nú sé uppi um búsetu flóttafólks. Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að standa vörð um kerfi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega vernd fólks.
Guðrún sagði að ríkið verði að gæta að því að taka vel á móti fólki sem er í neyð. „Á sama tíma viljum við standa vörð um að þetta kerfi sé ekki misnotað,“ sagði hún og bætti því við að dómsmálaráðherra þætti vera blikur á lofti varðandi það. Guðrún sagði mikilvægt að stjórnvöld setji sér stefnu í útlendingamálum. Hópar hafi verið að vinna að því að kortleggja þetta umhverfi. Kerfið verði að vera þannig að jafnræðis sé gætt. Fólk verði að sitja við sama borð og fá sanngjarna og réttláta meðferð þegar hingað kemur.
Kristjana sagði mikilvægt að almenn sátt ríki um útlendingalög og útlendingastefnu. Sátt ríki um núverandi lög sem voru sett árið 2017, í þverpólitísku samráði. Frumvarp dómsmálaráðherra sé skref til baka og engin sátt um það. Frumvarpið taki heldur ekki á þeim vanda sem nú sé uppi um búsetu flóttafólks. Hvergi séu neinir alvarlegir hnökrar í kerfinu, til dæmis vegna ákvörðunar stjórnvalda um hraðari meðferð Úkraínumanna og ákvörðun kærunefndar útlendingamála um fólk sem kemur frá Venesúela.
Guðrún sagði innviði sveitarfélaga og ríkisins ekki ráða við þann fjölda sem kemur hingað til lands. Það reyni á þegar fjöldi barna bætist við inn í skóla eða leikskóla. Bæði á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem á landsbyggðinni sé vandamál varðandi húsnæði og það verði að geta tryggt fólk sem hingað kemur húsnæði.
Komið hefur fram í fjölmiðlum að bakslag hafi orðið í réttindabaráttu hinsegin fólks og útlendinga. Kristjana sagði að umræðan um útlendingamál undanfarna daga sé ákveðinn hræðsluáráður. Hún sé á því að það sé verið að ala á einhverjum ótta á því óþekkta sem sé rótin að hatri og hatursorðræðu. Fólk þurfi að vanda sig. Guðrún kallaði eftir yfirvegaðri umræðu um hvernig samfélag við viljum eiga. Hvort henni þætti dómsmálaráðherra hafa talað yfirvegað um útlendingamál undanfarna daga sagðist hún ekki ætla að tala fyrir hann. Hún gæti aðeins talað sem Guðrún Hafsteinsdóttir, óbreyttur þingmaður. Hvort hún ætlaði að tala með sama hætti og núverandi dómsmálaráðherra þegar hún tekur við embættinu sagðist hún ekki vilja tjá sig sem slík enn sem komið er.
Hægt er að hlusta á Vikulokin í spilaranum hér að ofan.