Dómsmálaráðherra segir nauðsynlegt að vera með lokaðar búðir fyrir hælisleitendur sem koma til landsins en er synjað um hæli. Þá hugnast honum vel að koma á fót móttökubúðum fyrir flóttafólk. Hann vill þó ekki meina að það væru flóttamannabúðir.

Takmarkað aðgengi og takmarkað ferðafrelsi

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir að það sé skylda stjórnvalda að vera með lokað búsetuúrræði fyrir flóttafólk sem er synjað um hæli.

„Þá fer fólk á dvalarstað á ákveðnum stað, þar er takmarkað aðgengi, takmarkað ferðafrelsi, á meðan að fólk er að bíða frávísunar og brottvísunar úr landi,“ segir Jón.

Að óbreyttu sé aðild Íslands að Schengen í uppnámi. „Við þurfum að bregðast við því að bæta úr þessu og okkur ber skylda til að gera það. Ákveðið uppnám gæti verið á aðild okkar að Schengen ef við erum ekki að standast þær kröfur sem til okkar eru gerðar,“ segir Jón.

Evrópufræðingur og kennari við Háskóla Íslands sagði í hádegisfréttum í gær að ekkert væri hæft í því að aðild Íslands að Schengen sé í hættu og sakaði dómsmálaráðherra um hræðsluáróður.

„Við glímum við ákveðið vandamál þegar kemur að frávísunum, að það næst ekki í fólk, við vitum ekki hvar það er, við vitum jafnvel ekki hvort það er farið úr landi í einhverjum tilfellum, við vitum ekki hvort það er í felum til þess að láta tímafrestinn líða, og þetta snýr að þessum þætti fyrst og fremst,“ segir Jón.

Segir mun á móttökubúðum fyrir flóttafólk og flóttamannabúðum

Bryndís Haraldsdóttir, samflokksmaður Jóns og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, vill að sett verði á laggirnar svokallað búsetuúrræði fyrir flóttafólk, sem myndi þjóna sem fyrsta stopp við komu þess til landsins, til dæmis í Reykjanesbæ.

Spurður hvernig honum hugnist flóttamannabúðir í Reykjanesbæ segist Jón ekki kannast við slíkar hugmyndir. Aftur á móti hugnist honum vel móttökubúðir fyrir flóttafólk. „Já, móttökubúðir eru annað. Það eru margar þjóðir sem eru með það fyrirkomulag að þegar að fólk kemur til landsins þá er því safnað saman á ákveðnum móttökustað á meðan verið er að vinna úr þeirra málum og ég held að miðað við þann fjölda sem er farinn að koma hingað þá geti verið heppilegt fyrir okkur að skoða það alveg sérstaklega,“ segir Jón.