Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handbolta er bjartsýnn fyrir leik Íslands og Eistlands í undankeppni EM 2024 í handbolta á morgun. Liðin mætast þá í Eistlandi klukkan 16:10.

En við hverju mega áhorfendur búast þegar þeir setjast fyrir framan sjónvarpið á morgun til að horfa á leikinn? „Einbeittu íslensku liði sem ætlar að fara inn í leikinn til að vinna hann og klára þessa landsliðsviku með stæl,“ sagði hornamaðurinn Bjarki Már Elísson fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Eistlandi í dag.

Ísland vann Ísrael á Íslandi á miðvikudagskvöld 36-21 og sýndi þar mikla yfirburði. En hvernig er þetta eistneska lið í samanburði við það ísraelska? „Það er erfitt að setja puttana á það hvar einhver munur liggur á milli. Ég myndi segja að Eistland væri sterkari andstæðingur. Þeir eru með fleiri góða leikmenn. En að sama skapi erum við líka búnir að undirbúa okkur þannig að við erum að horfa í okkar leik hvað við getum gert betur. Þeir eru með einhver vopn sem við erum búnir að skoða líka, en við ætlum fyrst og fremst að bæta okkar leik.“

Finnst íslenska landsliðið vera á góðum stað

En á hvaða stað finnst Bjarka íslenska landsliðið vera í dag miðað við þá leiki sem liðið hefur spilað á árinu, bæði á EM og svo leikinn við Ísrael á miðvikudag? „Bara á mjög góðum stað. Ég held að janúar hafi sýnt það í öllu COVID ruglinu að við eigum fullt af leikmönnum. Það komu inn fullt af gæjum sem höfðu ekki verið inni í myndinni og stóðu sig mjög vel. Þannig ég myndi segja að við værum bara á mjög góðum stað. Auðvitað viljum við alltaf hafa alla bestu með. En núna eru einhverjir tæpir og svona. En við dílum bara við það. Við gerðum það mjög vel á móti Ísrael og munum gera það á morgun líka.“

Leikur Eistlands og Íslands hefst klukkan 16:10 á morgun. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV og hefst með upphitun í EM stofunni klukkan 15:50.