Tuttugasta flokksþing kínverska kommúnistaflokksins stendur fyrir dyrum. Það hefst á sunnudag og ef allt gengur samkvæmt áætlun verður Xi Jinping hylltur sem aðalritari flokksins í þriðja sinn og þar með valdamesti maður landsins frá því að Maó Tse-tung var og hét. Hann verður þá jafnframt forseti herráðsins og forseti landsins.
Gríðarleg öryggisgæsla er alla jafna á Torgi hins himneska friðar í Peking. Hún hefur verið hert til muna í aðdraganda flokksþingsins, þar sem hátt í 2.300 fulltrúar frá öllum héruðum Kína koma saman í Höll alþýðunnar. Heilbrigðiseftirlit hefur einnig verið hert verulega frá fyrri flokksþingum. COVID-19 farsóttin vofir yfir og ráðamenn hafa í engu slakað á að halda henni frá Kína með harðri hendi allt frá því að hún blossaði upp á útmánuðum 2020.
Allir valdir fyrirfram
Þingið fer að mestu leyti fram fyrir luktum dyrum. Á því velja þingfulltrúarnir tvö hundruð manna miðstjórn, sem síðan kýs 25 manna Politburo eða forsætisnefnd sem Xi Jinping forseti stýrir. AFP fréttastofan hefur eftir Jean-Philippe Béja, sérfræðingi í málefnum Kína, að fyrir flokksþingið hafi allt starf þess verið vandlega skipulagt þar sem það geti ekki hafist fyrr en samkomulag hafi nást um alla þætti þess. Gagnrýnendur Xi Jinpings segja einnig að hann hafi á undanförnum árum útilokað alla pólitíska andstæðinga frá því að taka þátt í þinginu, einkum með því að ásaka þá um spillingu.
Boðaði góð tengsl
Forsetinn ávarpar þingið á fyrsta degi, á sunnudag. Þar fer hann yfir það sem gerst hefur frá árinu 2017 þegar hann var kjörinn leiðtogi landsins í annað sinn. Síðan leggur hann línurnar fyrir næstu fimm ár, hvort tveggja fyrir landið og starf kommúnistaflokksins. Fyrir fimm árum hét hann því að kínverskar áherslur yrðu hertar í þeirri sósíalísku hugmyndafræði sem flokkurinn starfar eftir og að ráðamenn yrðu í meiri samskiptum við aðrar þjóðir en þangað til. „Góð tengsl leiða til framfara en einangrun heldur aftur af okkur,“ sagði forsetinn við það tækifæri. „Kína ætlar ekki að loka dyrunum fyrir umheiminum heldur verða opnari og opnari. “
Fimm árum síðar er staðreyndin sú að forsetinn og hans nánasta hirð hafa ekki staðið við þessa yfirlýsingu. Heimsfaraldrinum er meðal annars um að kenna. Á sama tíma og flestar þjóðir heims hafa slakað á kröfum um sóttvarnir vegna hans eða afnumið þær með öllu, halda Kínverjar sig við núll stefnuna svonefndu. Kórónuveirunni skal haldið í skefjum með góðu eða illu. Þetta hefur þýtt strangar ferðatakmarkanir og fjöldaskimanir. Tugmilljónum hefur jafnvel fyrirskipað að halda sig heima, ella verði þeim refsað.
Þessar ströngu ráðstafanir hafa valdið Kínverjum ómældum vandræðum og jafnframt bitnað hart á fyrirtækjum. Dregið hefur úr hagvexti af þessum sökum og verð á fasteignum lækkað.
Núllstefna veldur vandræðum
„Núllstefna stjórnvalda hefur dregið úr fjárfestingum í Kína og mætt andstöðu ungra landsmanna sem stefnan hefur bitnað harðast á - jafnt efnahagslega og félagslega,“ hefur AFP fréttastofan eftir Yu Jie, sérfræðingi hjá Chatham House rannsóknastofnuninni í Lundúnum. Jean-Philippe Béja bætir við að margir landsmenn óttist að tímar einangrunar séu að renna upp að nýju sem þeir hafi ekki upplifað síðan seint á áttunda áratug síðustu aldar.
Frá síðasta flokksþingi árið 2017 hafa samskipti Kína og Bandaríkjanna farið versnandi. Harðnandi utanríkisstefna forsetans hefur einnig vakið deilur, þar á meðal á Indlandi, í Ástralíu og Kanada. Vestræn ríki hafa brugðist við síharðnandi yfirlýsingum Peking-stjórnarinnar gagnvart Taívan sem hún lítur á sem sitt yfirráðasvæði og telur sig mega taka með valdi ef þörf krefur. Einnig hafa ráðamenn verið sakaðir um víðtæk mannréttindabrot, sér í lagi í vesturhluta héraðsins Xinjiang. „Þriðja kjörtímabil Xi forseta lofar ekki góðu fyrir mannréttindi í Kína og heiminum öllum,“ segir Yaqiu Wang, hátt settur starfsmaður Mannréttindavaktarinnar, Human Rights Watch.
Efnahag hrakar - atvinnuleysi eykst
Margháttuð vandamál blasa við Kínverjum þegar hið fordæmalausa þriðja kjörtímabil Xi Jinpings forseta er að hefjast. - Hingað til hafa leiðtogarnir látið nægja að sitja í tvö kjörtímabil, tíu ár. - Í ítarlegri umfjöllun Time tímaritsins bandaríska um stöðu mála í landinu segir að versnandi efnahagshorfur og samskipti ráðamanna við umheiminn valdi núningi meðal landsmanna. Landsframleiðslan dróst saman um 2,6 prósent á öðrum ársfjórðungi, Í júlí var atvinnuleysi meðal ungs fólks tuttugu prósent. Fjöldi fólks getur ekki lengur staðið undir afborgunum af íbúðum sínum. Fjölmörg fjölbýlishús standa auð.
Ríkisfjölmiðlarnir í Kína fjalla lítið um vandamál líðandi stundar. Athygli þeirra er á landsfundinum fram undan og afrekum sem forsetinn, eða leiðtogi alþýðunnar, eins og sumir nefna hann, hefur unnið á síðasta kjörtímabili. Hann á vís fimm ár í viðbót á valdastóli. Sumir reikna með að hann eigi jafnvel eftir að sitja þar enn lengur.