Tónlistarfólkið okkar er nokkuð sperrt í vikunni sem þýðir að það er spriklandi ferskum afla landað í Undiröldunni. Tónlistarfólk með ný lög í karinu eru Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar, Kvikindi, JFDR, Daníel Hjálmtýsson ásamt Aðalbirni Tryggvasyni, Mosa frænda, Stefáni Jakobssyni og Margréti Eir.
Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar - Faðir
Það er eru tíu ár frá útgáfu plötunnar Þar sem himin býr við haf með Jónasi Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Í tilefni af því blæs gengið til tónleika í nóvember og gefur út lagið Faðir sem fjallar um þörf fólks fyrir viðurkenningu.
Kvikindi - Ungfrú Ísland
Kvikindi hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu sem heitir Ungfrú Ísland. Dúettinn skipta þau Brynhildur Karlsdóttir og Friðrik Margrétar- Guðmundsson. Titillag plötunnar Ungfrú Ísland er stuðningslag sem þau hafa gert til að rífa fólk upp úr sjálfsniðurrifi og krýna með kórónu fegurðardísarinnar.
JFDR - The Orchid
Tónlistarkonan Jófríður Ákadóttir eða JFDR hefur sent frá sér lagið The Orchid sem er það fyrsta sem hún sendir frá sér með nýja útgáfufyrirtæki sínu Houndstooth.
Daníel Hjálmtýson og Aðalbjörn Tryggvason - No Reception
Lagið No Reception er fjórða og jafnframt síðasta smáskífa Daníels Hjálmtýssonar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu hans. Platan heitir Labrynthia og er væntanleg þann 11. nóvember. Daníel Hjálmtýsson fær aðstoð við flutninginn frá Hálfdáni Árnasyni, Skúla Gíslasyni og Aðalbirni Tryggvasyni úr Sólstöfum.
Mosi frændi - Taktu þessa slöngu
Ný þröngskífa Mosa frænda, Hvítur dvergur, kom út um mánaðamótin hjá útgáfufyrirtæki þeirra Vandamannaútgáfum. Platan inniheldur sex lög og Taktu þessa slöngu, sem þeir segja að sé nýbylgjuskotið skrýtnipönk, er upphafslag skífunar.
Stefán Jakobsson - Í fjallasal
Rokkóperan Fjalla-Eyvindur og Halla - Ástarsaga eftir Jóhann Helgason er komin út á bók og geisladiski. Þar er að finna 22 lög sem byggjast á sögunni um Fjalla-Eyvind og Höllu, sem eru sungin af þeim Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, Magna Ásgeirssyni og Stefáni Jakobssyni sem tekur meðal annars lagið Í fjallasal.
Margrét Eir - Manstu
Tónlistarkonan Margrét Eir hefur sent frá sér lagið Manstu. „Á námsárum mínum hér í Reykjavík kom ég oft við í fornbókasölum bæjarins og keypti mér ljóðabækur. Bókin sem þetta ljóð er í heitir Aftanskin og er eftir Rannveigu Guðnadóttur en hún fæddist árið 1890. Ljóðið heitir Manstu og er fallegt ástarljóð,“ segir Margrét.