Stuðningsmenn Víkings Reykjavíkur og mótherja þeirra fá að mæta á leikinn sem Víkingur fá ekki að spila á heimavelli sínum sökum heimaleikjabanns. Víkingur fékk nýverið 200.000 króna sekt auk heimaleikjabanns sökum ósæmilegrar hegðunar hjá áhorfendum liðsins. Þá sagði Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, í viðtali við íþróttadeild RÚV að KSÍ muni nota sektina sem sambandið beitti gegn sjálfu sér í gott málefni.

Vegna ósæmilegrar hegðunar stuðningsmanna á úrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu þann 1. október beitti aga- og úrskurðarnefnd KSÍ refsingum gegn Víkingum og FH.

FH fékk 50.000 króna sekt en sekt Víkinga var öllu þyngri. Hægt er að lesa um málið hér: Heimaleikjabann í fyrsta sinn í sögunni.

Áhorfendur mega mæta og styðja sitt lið

En í hverju nákvæmlega felst heimaleikjabann?

"Í því felst að viðkomandi aðildarfélag, sem að fær þessi viðurlög, fær að leika á hlutlausum velli. Því er meinað að leika á sínum heimavelli á sínu heimasvæði.“

Á þetta við áhorfendur heimaliðsins?

„Nei, það kemur í raun og veru ekkert fram um það í úrskurðinum. Heimaleikjabann felur í raun og veru það í sér að þú ert sviptur þessum heimaleikjarétti í einn heimaleik, eins og í þessu tilfelli. En allar aðrar reglur gilda áfram. Þannig völlurinn þarf að uppfylla sömu skilyrði og aðrir keppnisvellir í efstu deild.“

Í því felst ákveði fjárhagslegt tjón fyrir Víking enda getur fylgt því ákveðinn kostnaður að færa sig um set fyrir einn leik, samkvæmt Hauki.

„Það auðvitað felur í sér tilheyrandi kostnað að færa sig um völl með stuttum fyrirvara. Borga kannski undir vallarleigu og slíkt. Svo fylgir þarna auðvitað sekt.“

Staðfest er að Víkingar áfrýi úrskurðinum og ef að banninu verður mun heimaleikur Víkings gegn KR laugardaginn 22. október fara fram á hlutlausum velli.

Heimaleikjabann í fyrsta sinn

Heimildin að setja lið í heimaleikjabann hefur verið í lögum KSÍ í þó nokkurn tíma en hefur þó aldrei verið notað hingað til. Lið eins og Fylkir, Fjölnir og FH hafa verið nálægt því í gegnum tíðina.

En er þetta í fyrsta sinn sem heimildin er notuð?

„Ekki að mér vitandi. En þetta er heimild sem er búin að vera í reglugerð í töluverðan tíma. Jú, þessari viðurlagaheimild er beitt í þessu tilfelli þar sem brotið taldist það alvarlegt.“

KSÍ skipar KSÍ að borga KSÍ

Málið flæktist ögn þegar í ljós kom að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ skipaði KSÍ að greiða 200.000 króna sekt til KSÍ vegna málsins. Úrslitaleikurinn var á hlutlausum velli og sá KSÍ um skipulagningu leiksins og umgjörð utan um hann. Það er að segja, KSÍ bar ábyrgð á áhorfendum.

Hvernig mun KSÍ afgreiða þetta sektarmál?

„Skiljanlega kannski kemur það svolítið spánskt fyrir sjónir. En rétt eins og hjá ríkinu, þegar verið er að sekta ríkisstofnanir eða stjórnsýsluna. Þegar það er verið að beita sektum gagnvart sínum örnum, þá fer þetta auðvitað bara hringinn. En þetta er auðvitað bara táknrænt. Það er ekki nema að sambandið nýti þessa upphæð og styrki þá gott málefni. Ég veit reyndar ekki betur en að verði raunin í þessu tilfelli.“

KSÍ hyggst nota tækifærið og gefa 200.000 króna sektina til góðs málefnis.