Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Verði frumvarpið að lögum yrði slakað á reglu um að launþegar séu í starfandi stéttarfélagi eða skyldan jafnvel afnumin. Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann segir að félagafrelsi á vinnumarkaði sé aðeins í orði en ekki á borði.
Óli Björn segir forgangsréttarákvæði kjarasamninga ógilda félagafrelsi sem kveðið er á um í 74. grein stjórnarskrárinnar. Samkvæmt því fær félagsmaður forgang þegar ráðið er í starf og komi til uppsagna á að segja upp ófélagsbundnum starfsmanni á undan félagsbundnum starfsmanni.
„Við teljum rétt, eðlilegt og sanngjarnt, og nauðsynlegt að íslenskt launafólk njóti sömu réttinda og félagar þeirra til dæmis á Norðurlöndum og nær alls staðar annars staðar í Evrópu.“
Hann segir ekki ásættanlegt að starfsemi verkalýðsfélaga byggist á að þvinga fólk til að vera í félagi sem það vilji ekki vera í. Nýtt fyrirkomulag ætti frekar að efla stéttarfélög en öfugt.
„Þau þurfa þá að beita sér að því að sinna hagsmunum sinna félagsmanna. Þau þurfa að sannfæra mann sem er að fara út á vinnumarkaðinn að ganga til liðs við félagið. Sannfæra hann um að hagsmunum hans sé best borgið með því að vera innan vébanda félagsins.“
Hann telur þetta einnig geta aukið áhuga fólks á stéttarfélagi sínu. „Þú munt líka gera meiri kröfur til þeirrar þjónustu, til forystu verkalýðsfélaganna og svo framvegis.“