Fyrstu flóttamennirnir frá Úkraínu eru fluttir inn í nýtt móttökuskjól í gamla Alþýðuskólanum á Eiðum. Einn þeirra segist ánægður með móttökurnar og vill ólmur finna sér vinnu og skjóta rótum á nýjum stað.
Sextán manns komu austur frá Bifröst og Ásbrú með rútum í gærkvöld. Við hittum á hluta hópsins á Egilsstöðum í hádeginu en eitt af fyrstu verkum er að kaupa í matinn. Taras var búinn að ná sér í rúgbrauð, jólaöl og fleira. „Ég keypti hollt í matinn eins og epli og einhver fræ. Ég held að þetta sé bragðgott,“ segir Taras Karavanskyi, frá borginni Lutsk í Úkraínu.
Á Eiðum er búið að draga úkraínska fánann að húni. Móttökuskjólið er í Miklagarði sem var áður heimavist og pláss fyrir 40 manns. Taras líst vel á aðstöðuna og móttökurnar. „Fólkið er mjög gott og allt sem það gerir gerir það frá hjartanu.“
„Hingað kemur fólkið bara í gærkvöldi og við vorum að funda með því í morgun á ókum því í Bónus að kaupa sér matvörur og fleira og svo vinnum við með þeim stofnunum sem koma að málefnum flóttamanna að því að aðlaga það. Það fær íslenskukennslu og aðstoð við að leita sér að vinnu og við eigum eftir að kynnast hverjum og einum einstaklingi betur og komast að þeirra þörfum og hvar þeir eru staddir. Það er rúta sem gengur á milli þrisvar á dag. Á milli Egilsstaða og Eiða. Þannig að það ætti þá að geta orðið til þess að þetta fólk sem hér býr ætti að geta sótt vinnu og þjónustu yfir á Egilsstaði,“ segir Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri í Múlaþingi.
„Ég vil vinna mér vinnu og vonandi ílengist ég og skýt rótum á þessum stað,“ segir Taras Karavanskyi.