Rekstur íslenskra sveitarfélaga er í járnum og sveitarstjórnir um land allt glíma við hækkandi útgjöld vegna viðamikilla málaflokka sem þeim ber skylda til þess að sinna. Þar ber málefni fatlaðra hæst.

Hvílir þungt á sveitarstjórnum

Sveitarstjórnarmenn hafa kvartað sáran undan að ríkið hafi dregið lappirnar í að tryggja nægjanlegt fjármagn til þess að sveitarfélögin geti sinnt fötluðum á sómasamlegan hátt. Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga hófst í morgun og Spegillinn ræddi við Heiðu Björgu Hilmisdóttur nýkjörinn formann sambandsins.  

Málaflokkar fluttir án samninga

„Ástæðan fyrir þessari stöðu er auðvitað margvísleg" segir Heiða Björg. „Útgjöld okkar jukust í kringum Covid. Svo eru líka málaflokkar sem að hafa flust til okkar án þess að um það hafi verið samið. Þar get ég nefnt börn með fjölþættan vanda þar sem ríkið hefur dregið úr úrræðum fyrir mikið veik börn.

Sveitarfélögin hafa svolítið endað með verkefnið í fanginu. Þetta er gríðarlega flókið og kostnaðarsamt verkefni, sérstaklega ef horft er á minni sveitarfélög. Þau geta ekki með nokkru móti mætt þessu án þess að valda miklum útgjaldaauka".

Sinnum þjónustunni betur en ríkið 

„Og svo eru það málefni fatlaðs fólks sem við erum alltaf að ræða og er auðvitað sá málaflokkur sem við tókum síðast yfir af ríkinu. Það er okkar bjargfasta trú að við sinnum nærþjónustu betur en ríkið. Það sé betra að nærþjónusta sé skipulögð af þeim sem eru í nálægð við íbúana. Og nú erum við nýbúin að kjósa 470 sveitarstjórnarfulltrúa sem að eru sannarlega í nálægð við íbúa landsins".

Kröfurnar blessunarlega aukist, en þær kosta

„Við sitjum uppi með það að kröfurnar á okkur um þjónustu við fatlað fólk hafa blessunarlega aukist. Auðvitað eigum við sem íslenskt samfélag að jafna stöðu fólks. Og við viljum að fatlað fólk fái sömu tækifæri og aðrir. En það kostar.

Og það kostar meira en lagt var með í upphafi þegar málaflokkurinn var færður yfir frá ríki til sveitarfélaga. Bæði voru réttindi fatlaðs fólks minni, fötluðum hefur fjölgað, fólk lifir lengur og eins hefur íslenska ríkið verið að bjóða fólki með fatlanir sem er á flótta velkomið til Íslands" segir Heiða Björg.

Ósanngjarnt að ræða um fatlað fólk sem bagga

Hún segir að allt þetta hafi haft þau áhrif að sveitarfélög séu með gríðarlegan halla og þau verði einhvern veginn að mæta því þannig að hætt verði að tala um fatlað fólk sem eitthvert bitbein ríkis og sveitarfélaga.

„Og ég veit að fólk sem fylgst hefur lengi með fréttum segir að svona var þetta líka með grunnskólann þegar hann var færður yfir. Svo hætti það, en við getum ekki beðið eftir því. Mér finnst ósanngjarnt gagnvart fötluðu fólki að við séum alltaf að ræða þeirra þjónustu og mikilvægu réttindi sem einhvern bagga á samfélaginu sem það er sannanlega ekki". 

Fjármagn fari til sveitarfélaga sem sinni þjónustunni

Hvernig líst þér á þá hugmynd Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðarráðherra að sveitarfélögum verði heimilt að hækka útsvarsprósentu um 0,26%. Það komi tekjuskattslækkun á móti, en að þessir peningar renni alfarið á þennan málaflokk, málefni fatlaðra?

„Mér líst vel á að það sé vilji til þess að fjármagna þetta stóra gat. Þetta er gríðarlega mikilvægt" segir Heiða Björg. „Ég veit ekki hvort ég á að gefa álit mitt á því hvort þetta sé nóg þar sem það er leiðinlegt að mæta hverju framlagi með gagnrýni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hækkum þá útsvarshlutfallið af skatti almennings þannig að stærra hlutfall af sköttum okkar fari til þessa mikilvæga verkefnis, fari inn í Jöfnunarsjóð og deilist út til þeirra sveitarfélaga sem sannanlega eru að sinna þjónustunni".

Fagnar vilja ráðherrans

„Ég fagna þessu jákvæða skrefi og því að skynja þennan vilja ráðherrans til að mæta okkur þarna. Og mér finnst að þetta sé ákveðin viðurkenning á því að við erum ekki að segja annað en satt. Síðan þurfum við að setjast yfir og semja um akkúrat hver prósentan er og hver útfærslan er. Þar erum við tilbúin til fulls samstarfs og ríflega það" segir Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Ítarlegra viðtal við Heiðu Björgu má heyra í spilaranum hér að ofan