Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra boðaði á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra Sveitarfélaga tilfærslu á fimm til sex milljarða króna skatttekjum frá ríki til sveitarfélaga vegna þjónustu þeirra í málefnum fatlaðra.
Tekjuskattur lækkar á móti
Til að koma til móts við fjárhagsvanda sveitarfélaga vegna þjónustu í málaflokknum stendur til að heimila sveitarfélögum að hækka útsvar um 0,26 prósent um næstu áramót. Á móti lækkar tekjuskatturinn um sömu prósentutölu.
Útsvar hækki um 0,26%
„Já, á meðan að þessi vinna stendur yfir um að ljúka greiningunni og finna út af hverju tekjur og gjöld hafa farið í sundur hjá sveitarfélögunum að þá erum við að leggja til að skoða hvort að ekki sé möguleiki að lækka tekjuskattinn um 0,26% gegn sambærilegri hækkun á útsvarinu til sveitarfélaga" segir Sigurður Ingi.
Fer í gegnum Jöfnunarsjóðinn
„Þetta yrði þá útfært þannig að tekjurnar rynnu í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hvatinn fyrir öll sveitarfélög til að nýta sér þetta yrði þá til staðar og að tekjurnar rynnu til þessa málaflokks".
Kæmi til framkvæmda um áramót
Hvenær er hugmyndin að þetta komi til framkvæmda?
„Hugmyndin er þá í raun og veru að gera þetta núna. Þetta gæti verið upphæð á tekjubilinu 5 - 6 milljarðar króna til þess að koma til móts á meðan að menn klára vinnuna við greininguna og finna út hvernig þessi skipting eigi að vera til framtíðar. Þannig að þetta yrði gert um áramót".
Er þetta þá í raun bráðabirgðalausn?
„Í raun og veru til þess að koma til móts við mjög erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga" segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðarráðherra.