Þetta rauða, það er ástin er ný skáldsaga eftir Rögnu Sigurðardóttur sem fjallar um unga og upprennandi listakonu um miðja síðustu öld. „Mig langaði til að skrifa um manneskju sem er haldin gríðarlegri ástríðu, þar sem hún tekur sína ástríðu fram yfir allt annað í lífinu og velur það.“
Þetta rauða, það er ástin er ný skáldsaga eftir Rögnu Sigurðardóttur. Sagan gerist í París um miðja 20. öld og fjallar um drauma, ástríðu, listina og ástina. „Um ástir en margs konar ást. Ástina á milli manns og konu, ástina á málverkinu, ástina á fjölskyldunni,“ segir Ragna um umfjöllunarefni bókarinnar. Rætt var við Rögnu í Kiljunni.
Tíðarandinn mikilvægur en persónusköpunin mikilvægari
Elsa brennur fyrir listina. Hún heldur til Parísar í framhaldsnám í myndlist og ætlar sér að komast í fremstu röð listamanna. Hún er ákaflega metnaðarfull en óvænt ástarsamband setur líf hennar í nýtt samhengi og hún stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun. „Hún verður fyrir áfalli og gengur á vegg og upp frá því þarf hún að taka ákvörðun sem er henni mjög erfið.“
„Þessi saga segir frá íslenskum listamönnum í París upp úr 1950.“ París var á þessum tíma miðstöð listar í Evrópu og listamenn hvaðanæva að fluttust þangað. Fjölþjóðlegt samfélag listamanna skapar sögusvið sem hvergi gat hafa verið til nema í þessari borg á þessum tíma. „Ég lagði mikla áherslu á að heimildirnar væru ekki að troða sér fram, að það væri alltaf bakgrunnurinn.“ Ragna lagði mikla rannsóknarvinnu í undirbúning bókarinnar en þótti mikilvægt að heimildirnar væru ekki að troða sér fram. „Það er þessi persónusköpun sem skiptir mestu máli.“
Málverkið eða ástin?
„Mig langaði til að skrifa um manneskju sem er haldin gríðarlegri ástríðu, þar sem hún tekur sína ástríðu fram yfir allt annað í lífinu og velur það.“ Ragna hefur áður skrifað um listamenn um miðja síðustu öld. Nýir straumar ruddu sér til rúms og abstraktlistin varð nánast eins og trúarbrögð. „Þetta var upp á líf og dauða, að fylgja nýjum straumum eins og abstraktlistinni, þetta voru eins og trúarbrögð.“
Ástríðufullir listamenn vöktu hjá Rögnu áhuga og hún ákvað að skrifa um íslenska listamenn í París. „Svo þrengdist alltaf og þrengdist sjónarhornið, þangað til á endanum var ég komin með eina konu og einn mann og þau urðu auðvitað par.“
Um leið og unga og upprennandi listakonan kemur til Parísar, uppfull af draumum og fyrirætlunum, hittir hún íslenskan málara og þau hefja ástarsamband. „Sem var alls ekki það sem hún ætlaði sér.“ Vegna ástarsambandsins stendur hún frammi fyrir erfiðri ákvörðun. „Ætlar hún að velja málverkið fram yfir allt? Hvað ætlar hún að gera? Hún þarf að ákveða það án þess að hún viti nokkuð raunverulega hvort þetta mun ganga upp hjá henni.“
Þetta rauða, það er ástin
Titillinn er tilvitnun í Svavar Guðnason, listmálara. Ragna rakst á tilvitnunina við rannsóknir fyrir bókina og fannst hún áhrifamikil. „Mér fannst þetta svo skemmtilegt af því að þarna er þessi stóri mikli maður, mikill karlmaður, og einhver er að spyrja hann um litanotkun í málverkum og þá segir hann, já þetta rauða, það er ástin.“
Ragna skráði ekki tilvitnunina sérstaklega hjá sér því hún var ekki staðreynd sem hún gæti þurft að fletta upp aftur síðar. Orðin sátu þó alltaf í henni. Hún man því hreinlega ekki hvar hún las þessi orð. „Þannig að ég lýsi eftir þessari tilvitnun.“