Ef samband sem hefur lifað í heila öld tvístrast, þurfa að vera betri ástæður fyrir því en Facebook-færsla, segir fráfarandi framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Klofningurinn sé ekki málefnalegur, heldur snúist um persónur. Hún segir að það sé undir félagsmönnum í VR og Eflingu komið hvort Alþýðusamband Íslands liðast í sundur.

Segir klofninginn ekki málefnalegan

Ágreiningur innan Alþýðusambandsins hefur verið fyrirferðamikill undanfarin misseri og kom bersýnilega í ljós þegar flosnaði upp úr þingi ASÍ. En um hvað snýst þessi ágreiningur? Um það eru ekki öll sammála.

„Ég hef aldrei almennilega áttað mig á hvaða málefni það eru sem þarna steytir á um og tel að þau séu minniháttar. En völdin séu meiriháttar,“ segir Halla Gunnarsdóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins.

Skipti máli að raddir minni félaga heyrist

Halla hefur verið framkvæmdastjóri ASÍ, en er í fæðingarorlofi og sagði starfi sínu lausu fljótlega eftir að Drífa Snædal sagði af sér sem forseti, vegna deilna innan sambandsins. 

„Það er klofið yfir persónum og leikendum og yfirráðum. Eins og ég skil formenn minni félaga sem hafa stigið fram, þau eru ekkert að segja: við eigum að fá að ráða öllu. Þau eru að segja: við eigum að vera með. Það skiptir máli að okkar raddir heyrist,“ segir Halla.

Sundrung á „veikum forsendum“

Halla segir að ástæður þremenningana, Ragnars Þórs Ingólfssonar, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Vilhjálms Birgissonar fyrir að ganga út af þinginu og hóta úrsögn veikar. 

„Sjálf tel ég ekkert endilega að ASÍ verði að haldast sameinað að eilífu, mér finnst það ekkert markmið í sjálfu sér. En ef að svona samband sem hefur lifað af í heila öld og hefur átt ofboðslega stóran þátt í að byggja upp þau lífsgæði sem við búum öll við, og tökum jafnvel sem sjálfsögðum hlut, ef þau eiga að tvístrast og sundrast þá finnst mér að það eigi að vera einhverjar góðar forsendur fyrir því. Það þarf að vera eitthvað raunverulegt þar að baki. Ekki að maður móðgist yfir því sem er sagt á Facebook eða verði undir í lýðræðislegum kosningum, sem reyndar fengu ekki einu sinni að eiga sér stað. Mér finnst mikill ábyrgðarhluti að ætla að sundra ASÍ á svona veikum forsendum.“

Ragnar Þór sagði í gær að hann hefði ekki óttast að ná ekki kjöri og að það hefðu ekki verið samantekin ráð hjá honum,  Sólveigu og Vilhjálmi að ganga út af þinginu. Ragnar sagði að facebook færsla frá formanni Bárunnar hefði fyllt mælinn. Þar segir hún að fordæmalaus ofbeldismenning sem hafi grafið um sig í hreyfingunni hafi hrakið Drífu á brott og spyr hvort önnur hópuppsögn sé í uppsiglingu hjá ASÍ, nái þau kjöri. Ragnar segir að þarna hafi honum orðið ljóst að árásum á hann myndi ekki linna að loknum kosningum. 

Halla var ekki á þinginu en fylgdist með í gegnum fólk sem þar var og hún segir að þremenningarnir hafi efast um sinn stuðning á þinginu, þrátt fyrir að leiða stór félög innan ASÍ. „Þegar þessi mótframboð koma fram þá teiknast þetta upp þannig að þau Ragnar, Sólveig og Vilhjálmur verða aðeins óviss um hvort þau nái öll kjöri. Ég tel nú að staða Ragnars Þórs hafi verið nokkuð sterk, kannski ekkert afgerandi en hann hefði sennilega náð kjöri. En það var aðeins óvíst með embætti varaforseta, þegar sú staða teiknast upp þá ákveða þau að vilja ekki halda áfram.“

Í höndum félagsmanna

En hvað tekur við, verður hægt að sætta þessa deilu? Halla telur að boltinn sé hjá VR og Eflingu. „Félagar í þessum tveimur stéttarfélögum, það sé þeirra að láta sig málin varða núna, það er svolítið í þeirra höndum hvort ASÍ sundrast eða ekki.“

Halla hefur verið framkvæmdastjóri ASÍ í tvö ár. Hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessi átök? „Ég er ekki viss um að það hefði verið hægt að koma í veg fyrri þetta en það hefði pottþétt verið hægt að takast á við þetta með einhverjum öðrum hætti og læra ýmislegt af því.“

„Þegar ég kom inn í þetta starf þá fannst mér ég alveg vera sjóuð, hef unnið fyrir tvær ríkisstjórnin og þ.á.m. vinstri stjórnina eftir hrun sem var alltaf að springa. Maður vissi ekki hvort maður hefði vinnu næsta dag eða ekki. En ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Þetta er bara eitthvað allt annað, þetta er á allt öðru leveli, þetta hefur verið svo heiftúðugt,“ segir Halla.