Vel fór á með Guðna Th. Jóhannessyni forseta og Hákoni krónprins Noregs í Meradölum í hádeginu þar sem þeir spókuðu sig um gosslóðir í fylgd Kristínar Jónsdóttur, eldfjallafræðings á Veðurstofunni.

Krónprinsinn er hér á landi í tilefni af þingi Hringborðs Norðurslóða (Arctic Circle) sem verður sett í Hörpu í Reykjavík á morgun.

Ólöf Rún Skúladóttir fréttamaður fylgdi Guðna og Hákoni úr hlaði. Hákon segist vera mikill göngumaður og því sé gaman að fá tækifæri til að ganga um eldvirkt svæði í fylgd sérfræðings. „Þetta er ótrúlega heillandi svæði.“

Guðni forseti var ánægður með gönguna. „Því meira sem maður er úti í náttúrunni, því betra.“