Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, var að vonuma sáttur eftir fimmtán marka sigur gegn Ísrael í undankeppni EM 2024. Íslenska liðið átti stórglæsilegar sóknarrispur í leiknum.
Ég er mjög ánægður með leikinn frá A til Ö. Við spilum þetta að stóru leiti mjög vel varnarlega. Það voru gloppur í vörninni í fyrri hálfleik þar sem þeir komust í gegn um vörnina, þar sem það vantaði svokallaða hjálparvörn í nokkur skipti. En þeir eru mjög hraðir, sko, og komu í grimmar árásir. En það þurfti að hafa verulega fyrir þessu varnarlega. Svo fannst mér vörnin þéttast í síðari hálfleik.“
Björgvin Páll varði gífurlega mikið í marki Íslands í kvöld, og var Ágúst Elí ekki síðri er hann kom inn af bekknum.
„Bjöggi átti mjög góðan leik framan af, frábæran leik, og Ágúst kemur svo inn.“
“Ég er ánægður með að ég rúllaði á öllu liðinu, og það komu allir við sögu. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að geta það.“
Íslenska liðið lék við hvern sinn fingur í sókninni og litu all mörg glæsimörk dagsins ljós. Sjá má þorra þeirra hér í leikskýrslu kvöldsins:
Strákarnir okkar léku á als oddi gegn Ísrael.
„Sóknarlega var þetta frábærlega vel gert. Eiginlega segir markatalan mikið til um það. En við hefðum nú getað skorað mikið fleiri mörk ef við hefðum farið betur með fjölmörg dauðafæri. Ég hugsa að þau séu tíu þegar upp er staðið.“
Í dag spiluðu menn líkt og Kristján Örn Kristjánsson stóra rullu, en hann endaði markahæstur liðsmanna Íslands. Fyrir tveimur dögum Kristján ekki í hóp. Þorkell Gunnar fréttamaður RÚV á svæðinu spurði Guðmund út í frammistöðu þeirra sem komu inn í dag í fjarveru lykilmannana Ómars Inga og Arons Pálmasonar.
Menn svolítið að láta vita af sér - menn sem hafa spilað minna upp á síðkastið?
„Já, það er bara mjög jákvætt. Ég er mjög ánægður að sjá menn koma og stimpla sig hérna inn. Þeir eru að gera tilkall til að spila í þessu liði og það bara eykur á breiddina hjá okkur. Það er mjög ánægjulegt.“
Góð byrjun á undankeppninni, og eigum við ekki að segja gott veganesti til Eistlands?
„Algjörlega. Nú þurfum við auðvitað að vinna okkur vinnu eins og við höfum verið að gera. Ég er mjög ánægður með fagmennskuna. Hvernig menn nálgast leikinn. Það er full einbeiting. Það er ekki verið að gefa eitt eða neitt eftir. Fyrir þjálfara er það rosalega gott að horfa upp á.“
Liðið hefur verið á góðu skriði frá því á síðasta Evrópumóti.
„Það er gott fyrir okkur sem lið. Við höfum verið að spila vel undanfarið. Spiluðum góða leiki gegn Austurríki og náttúrulega á EM. En nú þarf að halda þessu áfram. En það er einmitt þannig í íþróttum. Það koma alltaf ný verkefni, og það er alltaf verið að prófa í næsta verkefni. Nú þurfum við að halda einbeitingu og ná góðum úrslitum á móti Eistlandi.“