Bandarískur maður á fimmtugsaldri sem sat inni í rúma tvo áratugi fyrir morð, er nú frjáls á ný og laus allra mála. Mál hans var tekið upp aftur eftir að vinsælir hlaðvarpsþættir leiddu í ljós að sönnunargögn málsins voru vafasöm.

Adnan Syed var 17 ára þegar honum var stungið í fanglesi árið 1999 fyrir að myrða fyrrverandi kærustu sína Hae Min Lee. Hann fékk lífstíðardóm en honum var sleppt úr fangelsi í síðasta mánuði þar sem nýjar upplýsingar komu fram í málinu. Þær lutu annars vegar að tveimur mönnum sem einnig voru grunaðir um glæpinn og hins vegar að staðsetningargögnum farsíma sem stuðst var við í rannsókn málsins, en nýjar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík gögn eru afar óáreiðanleg.

Saksóknaraembættið hafði þá 30 daga til að ákveða hvort Syed yrði ákærður að nýju og í gær dró til tíðinda. „Í morgun fyrirskipaði ég starfsfólki mínu að fella niður málið gegn Adnan Syed í framhaldi af annarri umverð dna-prófana á gögnum sem ekki höfðu áður verið prófuð,“ saðgi Marilyn Mosby, yfirsaksóknari Baltimoreborgar, á fundi með fréttamönnum í gær. Á skóm hinnar myrtu fundust nefnilega lífsýni úr mönnum sem eru taldir eiga þátt í morðinu. „Og mest sannfærandi var að efni úr Adnan Syed var útilokað,“ sagði Mosby. 

En hvers vegna var málið tekið upp aftur tveimur áratugum síðar? Hlaðvarpið Serial kom út árið 2014. Þar kafar bandaríska rannsóknarblaðakonan Sarah Koenig ofan í mál Syeds. Vinna Koening leiddi í ljós að tenging Sayes við morðið stóð á veikum grunni. Það hefur nú verið staðfest af yfirsaksóknara í Baltimore og Sayed, sem að því er virðist sat saklaus í fangelsi í 23 ár, er orðinn frjáls á ný.