„Til þess að ná fólki út af þjóðveginum þá verður þú að vera með eitthvað. Hafa eitthvað meira heldur en bara gistingu,“ segir Jóhanna Magnúsdóttir sem vinnur nú að því að koma upp ferðaþjónustu á Bjargi við Bakkafjörð.
Jóhanna kom fyrst til Bakkafjarðar fyrir tveimur árum síðan og féll strax fyrir gamla húsinu á Bjargi sem þá hafði ekki verið búið í lengi. Hún forvitnaðist um hvort húsið væri falt, fékk það keypt og safnaði fyrir nauðsynlegum framkvæmdum á Karolina Fund.
Jóhanna hafði lengi unnið í ferðaþjónustu en var á þessum tíma nýbúin að fá uppsagnarbréf. „Og þá ákvað ég að láta gamlan draum rætast og reka mitt eigið fyrirtæki.“
Á Bjargi ætlar Jóhanna að bjóða upp á gistingu og kaffiveitingar. Hún ætlar líka að miðla sögu staðarins með sýningu á ýmsum af þeim munum sem voru skildir eftir í húsinu. „Ég held að þetta sé staður þar sem fólk getur hvílst og notið. Það eru ekkert margir núna sem upplifa þessa þögn sem er svo dýrmæt í dag.“
Landinn heimsótti Jóhönnu á Bjargi.