Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var skiljanlega niðurlút eftir tap Íslands fyrir Portúgal í umspili fyrir HM kvenna í fótbolta í Portúgal í kvöld. Hún segir að íslenska landsliðið hafi brugðist vel við eftir að hafa orðið einum færri en það hafi verið of erfitt að lenda undir í framlengingunni.
„Við stigum upp eftir markið og rauða spjaldið og á einhverjum tíma fannst mér við ekki einu sinni vera einum færri. Þetta var opinn leikur fram að framlengingu en síðan fáum við á okkur tvö mörk og það var of mikið."
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks en Sara segir að það hafi þó verið næg orka í íslenska liðinu. „Við vorum með ferska fætur og að búa til... þetta hefði kannski breyst ef við hefðum náð að skora."
Aðspurð hvort þetta væru mestu vonbrigðin á ferli Söru játti hún því. „Já. Það má segja það."