Sigurður Sigurjónsson, leikari, missti föður sinn þegar hann var aðeins fimm ára. Til að hlífa honum og bróður hans fyrir sárum minningum var faðirinn ekki ræddur í æsku hans. „Ég sagði aldrei pabbi, bara orðið. Ekki fyrr en ég var sjálfur orðinn pabbi og heyrði börnin mín segja þetta.“
Sigurður Sigurjónsson hefur verið einn ástsælasti leikari þjóðarinnar um áratuga skeið. Hann hefur skemmt landsmönnum á skjánum, á sviði og á hvíta tjaldinu og á margar ódauðlegar persónur sem standa þjóðinni nærri. Siggi er að eigin sögn hlédrægur og feiminn og þeir sem þekkja hann best taka undir það. Það kom því á óvart þegar hann leiddist út á braut leiklistarinnar. „Það var alls ekkert á dagskránni að ég færi út í leiklist, bara hvarflaði ekki að mér né nokkrum öðrum í kringum mig og alls ekki í fjölskyldunni.“ Í heimildarþáttaröð í fjórum þáttum sem sýnd er á laugardagskvöldum á RÚV er fjallað um Sigga og eftirminnilegustu hlutverk hans eru rifjuð upp.
Aldrei sofið annars staðar en í Hafnarfirði
Sigurður er Hafnfirðingur í húð og hár. Hann er fæddur á æskuheimili sínu þann 6. júlí 1955. „Þar af leiðandi er ég original Gaflari, til þess að teljast slíkur þarf maður að fæðast í heimahúsi og ég náði því.“ Æskuárin í Hafnarfirði voru uppfull af ævintýrum. „Ég fæðist inn í ofboðslega skemmtilegt hverfi sem ég elst upp í. Við höfðum Hamarinn og fjöruna og slippinn og íshúsið og bryggjuna og St. Jósefsspítala og nunnuklaustrið og nunnur á vappi út um allt.“ Sigurður hefur haldið sig í Hafnarfirði alla tíð. „Ég hef varla sofið á öðrum stöðum en í Hafnarfirði.“
Hann segist mjög heppinn með fjölskyldu og sprell og hlátur hafi umlukið hann alla tíð. Hann segir móður sína hafa verið léttlynda og hafa prakkast mikið. „Samt er ég þessi týpa sem er til baka, feiminn og allt það, en ég held að ég hafi drukkið þetta í mig mjög snemma og ég hafi fæðst með einhver grín-gen í mér.“ Honum fannst ungum skemmtilegt að leika brandara og hafa gaman þó hann hafi ekki beint haft ríka athyglisþörf eða ásælst að koma fram. Hann byrjaði í skátunum ungur og það var á kvöldvökum sem leikarinn Siggi fæddist. „Þar byrja ég fyrir utan hið hefðbundna skátastarf að koma fram á kvöldvökum og þá fer eitthvað að grilla í leikarann Sigga Sigurjóns.“
Aldrei talað um pabba hans
Barnæskan var ljúf og skemmtileg en þó ekki eingöngu dans á rósum. „Ég hins vegar verð fyrir því áfalli þegar ég er bara fimm ára gamall, þá missi ég pabba minn. Hann var sjómaður og drukknaði.“ Missirinn markaði hann fyrir lífstíð. „Það var til siðs á þessum árum, sem hefur breyst sem betur fer til hins betra, að til þess að hlífa okkur þá var ekkert rætt um þennan pabba okkar. Hann var bara strokaður út.“
Til að hlífa þeim bræðrum, Sigga og Hreiðari, fyrir sárum minningum um föður þeirra var faðirinn ekki ræddur. „Þar af leiðandi missti ég minninguna um hann.“ Þegar þeir fullorðnuðust fóru þeir að vilja fylla upp í eyður minninganna. Þeir ræddu við móður sína og aðra sem höfðu þekkt föður þeirra til að fræðast um hann. „Það sem gerðist með mig, það bara strokast út öll minning um hann. Ég man bara örfá atriði með honum, sem er mjög sérstakt.“
„Ég sagði aldrei pabbi, bara orðið. Ekki fyrr en ég var sjálfur orðinn pabbi og heyrði börnin mín segja þetta,“ segir Sigurður. „Þetta var bara orð, það var strokað út úr orðabókinni. Það var mjög erfitt. Ég fattaði það eiginlega ekki fyrr en ég eignaðist börn sjálfur, þegar ég sagði orðið pabbi. Það var mjög sterk tilfinning.“
Á fjölskyldunni allt að þakka
Sigurður hefur verið giftur Lísu Charlotte Harðardóttur í rúm 40 ár. Þau kynntust í gegnum hjálparstarf skáta. „Af því að maður hefur sterkar rætur í Hafnarfirði þá náttúrulega þarf maður ekkert að leita út um garðinn neitt. Sem betur fer var stelpum hleypt inn í Hjálparsveitina þannig að ég gat boðið einni upp á einu þorrablótinu,“ segir Siggi. „Við erum enn þá að dansa saman.“
1. desember 1978 segist Lísa hafa tilkynnt mömmu sinni að þau Sigurður ætluðu að gifta sig. Þegar móðirin spurði hvenær athöfnin ætti að fara fram stóð ekki á svörum. „Já, Siggi er í fríi sunnudaginn 16. desember,“ rifjar Lísa upp. „Það var bara lítið og nett, nánasta fjölskylda heima í stofunni hjá mömmu.“
Þau hjónin búa saman í Hafnarfirði og líka börnin þeirra þrjú. „Maður skilur það ekki hvernig fjölskyldan umbar mann en ég er náttúrulega bara heppinn með konuna mína,“ segir Siggi. Vinnutími hans sem leikari hefur í gegnum tíðina verið afar óreglulegur og því mikið mætt á Lísu konu hans hvað varðar rekstur heimilisins. „Hún svo sem vissi að hverju hún var að ganga fljótlega og sá í hvað stefndi. Áttaði sig á því að ég var kannski í barnaleikritum alla laugardaga og alla sunnudaga, fyrir utan það að vinna alla daga vikunnar og þá var leikið fimm daga vikunnar og plús og plús og plús.“ Lísa segir að hún hafi verið heimavinnandi um tíma. „Það komu nokkur ár þar sem að ég var bara heimavinnandi húsmóðir á meðan, það þurfti einhver að reka heimilið. Það gátu ekki báðir verið útivinnandi og hann með þennan óreglulega vinnutíma og allt sem fylgir þessu,“ rifjar Lísa upp.
Siggi er fjölskyldu sinni afar þakklátur og segist eiga þeim mikið að þakka. „Svo er ég svo heppinn að bæði hún og börnin hafa fylgst með mér og haft áhuga á því sem ég hef verið að gera og verið þátttakendur að einhverju leyti. Ég á þeim allt að þakka hvað það varðar.“
Fyrsta þáttinn um Sigurð Sigurjónsson má finna hér í spilara RÚV.