Töluvert tjón varð á raflínum og girðingum í Bárðardal í óverðinu. Bóndi og tamningamaður segir tjónið hlaupa á hundruðum þúsunda og mikil vinna sé framundan.

Rafmangslaust í marga klukkutíma

Áður en stormurinn skall á í gær hafði Veðurstofan varað við að ísing gæti safnast á raflínur og valdið rafmagnstruflunum. Betur fór en á horfðist og ekkert víðtækt rafmagnsleysi hlaust af veðrinu. Það urðu þó truflanir á nokkrum stöðum til sveita, meðal annars í Bárðardal. Erlingur Ingvarsson er tamningamaður og bóndi á Sandhaugum. „Það fór rafmagn einhvern tímann um hádegið og kom, við náðum akkurat að elda kvöldmatinn. Það kom rafmagn þarna í kringum áttaleytið, svo fór það aftur. Og kom svo bara aftur held ég 11 eða eitthvað svoleiðis í gærkvöldi. Það svosem skaðaði okkur ekkert, það var orðið svalt í húsinu  en gerði ekkert til. Það var óþægilegt að gefa í myrkrinu,“ segir Erlingur. 

Erlingur og fjölskylda eru nokkuð vön rafmagnstruflunum en í aðventustorminum árið 2019 var rafmagnslaust hjá þeim í tvo sólarhringa. 

Finnst þér ekki bagalegt að tvisvar sinnum á svona stuttum tíma hrynji kerfi?

„Jú auðvitað er það ekki ákjósanlegt.“ 

Stór hluti girðinga skemmdar

En rafmagnsleysi er ekki það eina sem stormurinn olli því stór hluti girðinga á bænum skemmdust. „Það eru allar austur, vestur girðingar eða þvergirðingar eru illa farnar, þær eru verstar rafmagnsgirðingar með plaststaurum, þar eru bara staurarnir brotnir.“

Veistu hvað þetta er mikið tjón?

„Það er erfitt að segja. Þetta er umtalsvert tjón, í einhverjum hundrað þúsund köllum. Það er það versta er að það er rosa vinna sem fer í að laga þetta.“