Hagvöxtur í heiminum verður rúmum helmingi minni á næsta ári en því síðasta samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forstjóri Alþjóðabankans segir hættu á samdrætti í heimsbúskapnum aukast. Jón Daníelsson prófessor í hagfræði segir að Ísland gæti komið illa úr kreppunni.
Efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem birtist í dag, er býsna dökk.
Hagvöxtur í heiminum fer frá 6% í 3,2% á þessu ári, og minnkar niður í 2,7% á því næsta. Ef einstaka svæði eru skoðuð fer hagvöxtur á evrusvæðinu úr 5,2% í fyrra í 0,5% á næsta ári. Spáð er samdrætti í tveimur Evrópulöndum, 0,3% í Þýskalandi og 0,2% á Ítalíu. Í Bandaríkjunum verður 1% hagvöxtur á næsta ári og 0,3% í Bretlandi.
Svona tölur hafa ekki sést frá árinu 2001, nema í fjármálakreppunni 2008 og í heimsfaraldrinum. Pierre-Olivier Gourinchas aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir efnahagskerfi heimsins enn að veikjast og standi frammi fyrir sögulega brothættu umhverfi. David Malpass forstjóri Alþjóðabankans sagði í gær að enn væri hætta á samdræti á alþjóðavettvangi á næsta ári.
Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School og Economics segir að þrjár ástæður séu fyrir þessari stöðu. „Þessi eftirspurnarsprengja sem var eftir Covid er núna búin, í öðru lagi er verðbólgan miklu meiri en búist var við, er hærri en hún hefur verið í fjóra áratugi, og í þriðja lagi er það innrás Rússa í Úkraínu sem hefur líka truflað efnahagslíf heimsins töluvert. Allir þessir þættir spila saman.“
Jón segir að samdrátturinn í Þýskalandi og Ítalíu skýrist aðallega af því að þær þjóðir hafi verið háðar rússnesku gasi í sínum iðnaði. „Undir eins og verð á gasi hækkar mjög mikið þá dregst efnahagslíf í þessum löndum mjög mikið saman. Það er það sem í raun útskýrir af hverju Þýskaland sérstaklega er að fara svona illa út úr þessu.“
Jón segir að áhrifin verði mest á fólk sem er með lægri tekjur, til dæmis verkafólk og fólk í þjónustustörfum. Ástæðan er að orka og matur hafi hækkað mest í verði. Áhrifin á Ísland felist einkum í minni eftirspurn eftir þeirri lúxusvöru sem flutt er út.
„Það er oft sagt að þegar Evrópa fær kvef fær Ísland lungnabólgu,“ segir Jón og vísar þá í að Ísland sé mjög næmt fyrir áhrifum af efnahagnum í Evrópu. „Þannig að við getum búist við því ef illa fer, þá mun Ísland fara tiltölulega illa út úr þessu.“
Jón segir þó að í sögulegu samhengi sé þessi kreppa þó ekki stór - á slíku geti verið von á 10 ára fresti. „Þetta er ekkert sérstaklega slæmt. Þetta er efnahagssamdráttur auðvitað, en þetta er ekki mjög mikið í sögulegu samhengi. Við höfum séð miklu verri kreppur áður heldur en núna.“