Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist hafa farið inn á þing Alþýðusambandsins í góðri trú um að þar næðist góð samstaða fyrir komandi kjaraviðræður. „Strax á upphafsdegi þingsins er lögð fram tillaga sem er fordæmalaus. Þarna sáum við strax í upphafi að það var ekki vilji til þess að mæta á þetta þing til þess að láta hagsmuni launafólks ráða för,“ sagði Vilhjálmur í Kastljósi í kvöld.

Þorri fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar gengu út af þinginu í dag. Vilhjálmur sagði í Kastljósi í kvöld að verkalýðsbaráttan snúist orðið of mikið um persónulega óvild í garð sumra forystumanna. 

Vilhjálmur sagði það ekki í sínum höndum eða forystumönnum hinna tveggja verkalýðsfélaganna hvort félögin segi sig úr ASÍ, heldur sé það alfarið í höndum félagsmanna. Hann sagði að sú umræða verði þó að öllum líkindum tekin.