Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur ekki áhyggjur af því að hinn svekkjandi leikur gegn Hollendingum í síðasta leik undankeppninnar sitji í leikmönnum í dag, þegar þær spila mikilvægan úrslitaleik við Portúgal um sæti á HM.
Íslenska liðið fékk mark á sig þegar um 90 sekúndur voru eftir af leiknum gegn Hollendingum og töpuðu 1-0 þegar jafntefli hefði dugað. Þorsteinn gerir eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í þeim leik, Selma Sól Magnúsdóttir kemur inn fyrir Svövu Rós Guðmundsdóttur. Þorsteinn segir í viðtali við RÚV nú fyrir leikinn að hann hafi verið ánægður með Selmu undanfarið og segir hana vera komna aftur á sama stað og hún var áður en hún lenti í erfiðum meiðslum fyrir þremur árum. Þá gerir Þorsteinn taktíska breytingu í dag og setur Dagnýju Brynjarsdóttur fremst á miðjuna á meðan Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verða djúpar. Þannig geti geta Dagnýjar í loftinu nýst gegn markmanni Portúgal sem geti verið óöruggur.
„Þeir hafa verið með mjög svipað byrjunarlið undanfarið og svipaðar áherslur þannig að ég á ekki von á einhverjum stórum breytingum en maður veit aldrei,“ segir Þorsteinn um portúgalska liðið sem vann Belgíu nokkuð óvænt í fyrri umspilsleiknum og þjálfari Portúgal teflir fram sömu ellefu leikmönnum í dag. Þorsteinn segir lykilatriði fyrir íslenska liðið að nýta föstu leikatriðin, þora að halda boltanum og spila honum inn í ákveðin svæði.
„Svekkelsið frá því í Hollandi, sama hvernig sá leikur þróaðist, bara það að hafa verið 90 sekúndur frá því að tryggja þetta. Eru leikmenn, finnurðu enn þá þetta sama hungur, þennan sama neista eða erum við eitthvað særð?“ spyr Gunnar Birgisson að endingu.
„Hvaða leikur?“ svarar Þorsteinn.
Bein útsending frá leik Íslands og Portúgal hefst með HM stofunni á RÚV klukkan 16:20. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 17:00.