„Ég er miður mín yfir þessu," sagði Glódís Perla Viggósdóttir markaskorari Íslands eftir 4-1 tap gegn Portúgal í umspili fyrir HM kvenna í fótbolta í kvöld. Nú er endanlega ljóst að Ísland kemst ekki á HM á næsta ári.

„Við lendum í brekku en náum einhvern veginn að rífa okkur upp úr henni. Svo er þetta mjög opinn leikur og við orðnar þreyttar en ég er mjög stolt af liðinu og hvernig við höndluðum að vera einum færri í svona langan tíma. Í rauninni fannst mér við betri eftir að hafa lent einum færri. Þetta er ótrúlega sárt. Draumurinn er farinn."

Það var auðsjáanlegt á Glódísi í viðtalinu að vonbrigðin eru meiri en orð fá lýst. „Sorglegasta við þetta er að það eru margar í liðinu sem fá ekki annað tækifæri [á að komast á HM]. Það hefði verið ógeðslega gaman að fá að fara fyrir þær og með þeim. Það er mjög sárt."