Dómsmálaráðherra segir brýnt að bregðast við auknum fjölda hælisleitenda með hertum reglum. Hann segir ástandið nú vera stjórnlaust. Forsætisráðherra segir að hafa verði mannúðarsjónarmið að leiðarljósi í þessum málum. Ekki hefur orðið aukning á að fólk framvísi fölskum skilríkjum við komuna til landsins.

Frá áramótum hafa ríflega 3.000 sótt hér um hæli. Um sjö hundruð koma frá Venesúela en langflestir koma frá Úkraínu, eða næstum tvö þúsund manns.  

„Við þurfum að vera heiðarleg með það að þetta er að skapa álag á  okkar innviði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Boðar hertar reglur

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í gær að hann telji að móttökukerfi fyrir flóttamenn hér á landi sé of opið og það séu „seglar í okkar lagaumhverfi sem gera það að verkum að vandinn er eins mikill og raun ber vitni hér.“ 

En hvað á hann við? „Við erum í raun og veru með rýmri reglur hér fyrir það fólk sem er að leita til landsins í móttöku á því sem að gerir það að verkum að það dregur hingað fleiri heldur en hlutfallslega kemur til annarra landa, og það er vegna þess lagaumhverfið okkar er ekki sambærilegt við það sem er hjá löndunum sem við erum að bera okkur saman við í Evrópu,“ segir Jón. „Verndarhugtakið viðbótarvernd veitir mun meiri réttindi, við erum ekki með ákveðnar móttökubúðir þar sem við tökum á móti fólki heldur fer fólk beint út í samfélagið og það eru svo margir hlutir sem hægt er að telja til í þessu.“

Hann boðar hertar reglur og leggur fram nýtt frumvarp að útlendingalögum í þessum mánuði. 

„Við verðum að bregðast við þessu með einhverjum hætti, við getum ekki látið þetta vera stjórnlaust eins og það er í dag,“ segir Jón.

En er forsætisráðherra sammála því að það þurfi að herða útlendingalöggjöf eins og dómsmálaráðherra boðar? „Það kann vel að vera að við þurfum að skoða það hvernig við getum gert hana skilvirkari í okkar samfélagi en um leið verða áfram mannúðarsjónarmiðin að leiðarljósi í okkar meðhöndlun á þessum málum,“ segir Katrín.

Ekki aukning á fölskum vegabréfum flóttafólks

Jón segir dæmi um að fólk misnoti kerfið og komi hingað á fölskum vegabréfum. „Það er að koma hér fólk til landsins með nýútgefin vegabréf frá löndum sem eru þá í allt öðrum heimshlutum en þau er að koma frá,“ segir Jón.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra framvísuðu 54 hælisleitendur fölsuðum skilríkjum í fyrra, 21 árið 2020 -en þá lá millilandaflug að mestu niðri - og 47 árið 2019. Samkvæmt svari frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafa fjórtán komið á fölsuðum skilríkjum á þessu ári og 53 án skilríkja.